Batnandi manni er best að skrifa

gu_mundurandri.jpgÉg get tekið undir sumt í pistli Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu 20. júlí 2010. Hann segir: „Eins og við vitum er frjáls samkeppni óbærilegt ástand fyrir kaupmenn. Enginn hagnast á frjálsri samkeppni nema kannski almenningur - og hverjum er ekki sama um hann?“

Ég svara: Mér er ekki sama um almenning og ekki heldur þeim Adam Smith og Milton Friedman, mínum gömlu, góðu lærimeisturum.

Adam Smith skrifar í Auðlegð þjóðanna: „Fólk, sem stundar sömu atvinnugrein, fer sjaldan hvert á annars fund, jafnvel sér til skemmtunar og af­þrey­ingar, svo að samræður þess endi ekki í samsæri gegn almenningi eða einhverju ráðabruggi um að hækka verð.“ (1. bók, 10. kafli, 2. hluti.)

Milton Friedman sagði í kvöldverði, sem Verslunarráð Íslands hélt honum í Þingholti 31. ágúst 1984, þegar hann var spurður, hvað hættulegast væri kapítalismanum: „Lítið í spegil!“ Hann átti við hið sama og Adam Smith, að frjáls markaður er umfram allt neytendum í hag. Kapítalistar reyna jafnan að takmarka samkeppnina, því að hún knýr þá til að fullnægja þörfum neytenda betur og ódýrar en ella.

Baráttan fyrir frjálsum markaði er sífelld viðleitni til að sjá við þeim, sem vilja takmarka samkeppni og öðlast einokunaraðstöðu. Slík barátta verður, hygg ég, sjaldnast best háð í krafti víðtæks opinbers eftirlits, heldur með því að opna markaði, tryggja, að engum sé meinað að komast þangað inn, að allir geti hafið samkeppni við þá, sem í fleti eru fyrir.

Besta ráðið til að tryggja samkeppni er því að stækka markaðinn, eins og Adam Smith benti á, ryðja úr vegi hömlum á viðskiptum milli svæða og ríkja. Eitt skref í þá átt hér á Íslandi var að fá óheftan aðgang að Evrópumarkaði með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. En það væri síðan skref aftur á bak að takmarka aðgang að öðrum mörkuðum með því að ganga í Evrópusambandið. Íslendingar ættu ekki aðeins að vilja óheftan aðgang að Evrópumarkaði, heldur líka að mörkuðum í Rússlandi, Kína, Bandaríkjunum, Kanada, Brasilíu og alls staðar annars staðar, þar sem arðs er von.

Hitt er annað mál, að rök Adams Smiths gilda ekki á öllum mörkuðum. Til dæmis takmarkast fjölmiðlamarkaðurinn íslenski í eðli sínu við okkar málsvæði. Samkeppni verður hér ekki tryggð með því að stækka markaðinn til útlanda. Þess vegna var hugsanlega réttlætanlegt — frelsisins vegna — að setja einokun og fákeppni á slíkum markaði lagaskorður, eins og Davíð Oddsson vildi gera með fjölmiðlafrumvarpi sínu vorið 2004, sem Alþingi samþykkti, en forseti synjaði staðfestingar.

Einnig er á það að benda, að kapítalistar verða að fylgja settum reglum, skráðum og óskráðum. Svo virðist sem Baugsfeðgar hafi alls ekki gert það. Sleppum öllum þeim ótrúlegu málum, sem nú eru rekin fyrir dómstólum, enda hefur ekki fengist í þeim niðurstaða, en minnumst Baugsmálsins svokallaða. Þegar þá var reynt að koma lögum yfir Baugsfeðga, notuðu þeir hið mikla afl sitt til þess að ráðast á stjórnmálamenn (eða réttara sagt einn stjórnmálamann) og gera lögreglu tortryggilega. Þá lögðu margir þeim lið. Því miður var Guðmundur Andri Thorsson í þeim hópi.

Nú hefur hann skipt um skoðun, og er það vel. Nú gagnrýnir hann Baugsfeðga jafnfimlega og hann varði þá áður.

Batnandi manni er best að skrifa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband