21.7.2010 | 11:54
Engilsaxneskur kapítalismi?
Ein meginkenning Stefáns Ólafssonar prófessors er, að árin 19912004, á meðan Davíð Oddsson var forsætisráðherra, hafi hér á landi verið stofnað til kapítalisma í engilsaxneskum anda, en vikið af hinni norrænu leið, sem áður hafi verið farin. Gerir Stefán eins og fleiri fræðimenn greinarmun á tveimur afbrigðum af kapítalisma, engilsaxneskum (í Bretlandi og Bandaríkjunum, en einnig á Írlandi og í Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálandi) og norrænum.
Ég sýni fram á það í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem kom út í árslok 2009, að þessi kenning Stefáns er röng. Íslendingar viku ekki af hinni norrænu leið, af því að þeir voru ekki á henni. Íslenska hagkerfið var í tíð Davíðs Oddssonar, en raunar líka áður einhvers staðar á milli hins norræna og hins engilsaxneska líkans. Hér var velferðaraðstoð rausnarlegri en í Bretlandi og Bandaríkjunum og tekjuskipting jafnari, en hér var líka meira atvinnufrelsi og lægri skattar en á Norðurlöndum.
Hins vegar er merkilegt, að Stefán og sumir þeir, sem tóku undir með honum, til dæmis Jón Baldvin Hannibalsson, töluðu um það sem einhvern glæp að líkjast engilsaxnesku þjóðunum. Við eigum ekki að elta Norðurlandaþjóðirnar í einu og öllu, þótt margt sé gott um þær, heldur horfa líka til engilsaxnesku þjóðanna. Þetta sá Grímur Thomsen vel, er hann skrifaði í ritgerð um stöðu Íslands: Ísland er bæði í landfræðilegum og sögulegum skilningi Janus, sem snýr annarri ásjónu sinni að hinni gömlu og menntuðu Evrópu, hinni að Ameríku, ungri og saklausri. (Janus var rómverskur guð, sem horfði í tvær áttir.)
Íslendingar nítjándu aldar vissu vel, að margt mátti læra af Engilsöxum. Sérstaklega þótti félagsfrelsi þeirra eða atvinnufrelsi til fyrirmyndar, þá er samtakamáttur og sjálfsbjargarhvöt einstaklinganna er virkjað saman í ýmsum fyrirtækjum og félögum. Jónas Hallgrímsson sagði 1835 í ritgerð um hreppana á Íslandi í Fjölni:
Óskandi væri Íslendingar færu að sjá, hvað félagsandinn er ómissandi til eflingar velgengninni í smáu og stóru, og fylgdu í því dæmi annarra þjóða að fara að taka þátt í almenningshögum, hver eftir sínum kjörum og stöðu í félaginu. Þessi andi hefir gjört úr Englendingum svo virta og volduga þjóð, að hún bæði veit, hvað hún vill og hefir nóg afl til að framkvæma það, svo að frelsi hennar og réttindum, heiðri og velgengni mætti vera borgið héðan í frá.
Og níu árum síðar, 1844, sagði Jón Sigurðsson í ritgerð um félagsskap og samtök í Nýjum félagsritum:
Margir hinir vitrustu menn, sem ritað hafa um stjórnaraðferð á Englandi og rannsakað hana nákvæmlega, hafa álitið félagsfrelsið aðalstofn allrar framfarar þar á landi. Hin mikilvægustu fyrirtæki, bæði til andlegra og líkamlegra þarfa þjóðarinnar, tilbúningur á vegum, höfnum, brúm, hjólskipum og mýmörgum öðrum stórsmíðum, sem stjórnin hefði með engu móti getað afkastað eða komist yfir að láta gjöra, er allt gjört með félagssamtökum manna.
Ég játa, að frekar vil ég eiga sálufélag með þeim Grími Thomsen, Jónasi Hallgrímssyni og Jóni Sigurðssyni en þeim, sem vilja eins og Stefán Ólafsson og Jón Baldvin Hannibalsson apa allt eftir frændum okkar á Norðurlöndum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:56 | Facebook