20.7.2010 | 14:37
Ómerkilegar árásir Þorvaldar Gylfasonar á Kjartan Gunnarsson
Í síðasta pistli sínum í Fréttablaðinu ræðst Þorvaldur Gylfason af offorsi á Kjartan Gunnarsson, sem var lengi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og (í krafti eigin hlutafjáreignar) varaformaður bankaráðs Landsbankans um skeið fyrir hrun.
Heimildarmaður Þorvaldar fyrir því, að Kjartan hafi sem varaformaður bankaráðsins rofið lögmæltan trúnað og sagt mönnum úti í bæ frá högum einstakra skuldunauta bankans (Styrmis Gunnarssonar), er Sverrir Hermannsson.
Dregur hver dám af sínum sessunaut: Þorvaldur Gylfason er í slagtogi við Sverri Hermannsson, sem hrökklaðist úr bankastjórastöðu í Landsbankanum vegna spillingar. Hafði hann meðal annars ofgreitt sér risnu og utanferðir og framleigt Landsbankanum laxveiðiá, sem hann hafði sjálfur á leigu. Margt var talið fram aðfinnsluvert í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framferði Sverris.
Það vita hins vegar allir, sem þekkja Kjartan Gunnarsson, að hann er manna ólíklegastur til að rjúfa trúnað í starfi. Hann er maður vammlaus og vítalaus. Mér er raunar líka fullkunnugt um það, að Kjartan rauf ekki trúnað í þessu máli þvert á það, sem Sverrir fullyrðir.
Mér er enn fremur sagt, að vinir Sverris, Styrmir Gunnarsson og Matthías Johannessen, hafi báðir hvað eftir annað reynt að útskýra þetta fyrir honum, en árangurslaust. Sverrir sé eins og Þorvaldur Gylfason blindaður af hatri í garð Kjartans. Kennir hann Kjartani um það, að hann skyldist hrekjast úr bankastjórastarfinu, en horfir ekki í eigin barm.
Ég hef það fyrir satt, að sá maður, sem rauf trúnað og sagði mönnum úti í bæ frá högum einstakra skuldunauta bankans (Styrmis Gunnarssonar og eflaust fleiri), hafi verið enginn annar en Sverrir Hermannsson sjálfur.
Hið sama hafði hann raunar áður gert. Hann var bersýnilega aðalheimildarmaður Agnesar Bragadóttur, blaðamanns á Morgunblaðinu, fyrir frægum fréttaskýringum hennar á sínum tíma um endalok Sambands íslenskra samvinnufélaga. Þá var hann bankastjóri og bundinn hinum lögmælta trúnaði bankamanna, sem hann rauf með því að lauma upplýsingum til Agnesar.Var viðurlögum laga ekki beitt, þótt Agnes neitaði að skýra frá heimildarmönnum sínum, svo að Sverrir slapp við rannsókn og ákæru í því máli.
Þorvaldur Gylfason hefur nú skrifað í mörg ár í Fréttablaðið vikulegar greinar gegn spillingu og fjárglæfrum (og þegið fyrir vænar greiðslur). Hefur hann kallað aðra menn þagnameistara í háði, ef þeir hafa talið með réttu eða röngu, að um ýmis mál mætti stundum satt kyrrt liggja. Þorvaldur hefur ekki í eitt einasta skipti í mörg hundruð greinum sínum gagnrýnt þá spillingu og þá fjárglæfra, sem Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnandi Fréttablaðsins, hefur reynst sekur um og upplýst verið um.
Sá munur er og á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fyrrverandi eigendum Landsbankans, að Jón Ásgeir hefur af einhverjum óskiljanlegum ástæðum haldið yfirráðum yfir tveimur mikilvægustu fyrirtækjum sínum á Íslandi, Högum (Hagkaup og Bónus), þar sem faðir hans er stjórnarformaður, og 365-miðlum, þar sem eiginkona hans er stjórnarformaður. Fyrrverandi eigendur Landsbankans misstu hins vegar yfirráðin yfir Árvakri, sem var seldur í opnu útboði.
Almenningur sér á hverjum degi, hvernig Hagar moka á hverjum degi auglýsingum í Fréttablaðið og Stöð tvö. 97% af blaðaauglýsingum fyrirtækisins eru birtar í Fréttablaðinu og 95% af sjónvarpsauglýsingum þess á Stöð tvö. Þessi fjáraustur úr öðru fyrirtækinu í hitt er ekki einkamál Haga og 365-miðla, á meðan bæði fyrirtækin eru á framfæri almennings, rekin í skjóli ríkisbanka í raun.
Jón Ásgeir Jóhannesson var ekki heldur í neinum persónulegum ábyrgðum fyrir þeim stórkostlegu lánum, sem hann svældi út úr íslensku bönkunum, og veð hans fyrir þeim lánum voru ekki fullnægjandi. Lætur nærri, eins og fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, að hann hafi tæmt íslensku bankana fyrir bankahrunið (og með því átt verulegan þátt í hruninu), oft með blekkingum um það, að náskyldir aðilar (eins og Baugur, Fons og FL-Group) væru í raun óskyldir.
Á sama tíma og Jón Ásgeir getur fyrirsjáanlega aldrei staðið full skil á lánum sínum í íslensku bönkunum, er hann önnum kafinn við að losa skuldir af skrauthýsi sínu í New York og koma skíðaskála í Frakklandi undan hrammi lánardrottna, auk þess sem hann ekur á Íslandi um á glæsivagni frá 365-miðlum. Virðist hann líka luma á stórfé á leynireikningum í bönkum erlendis.
Í stað þess að endurtaka óra og ímyndanir upp úr gömlum og beiskum manni, er hrökklaðist úr bankastjórastöðu sökum spillingar og var sjálfur sekur um þau trúnaðarbrot, sem hann sakar aðra ranglega um, hefði Þorvaldur Gylfason átt að deila á hin stórfurðuleg vinnubrögð sumra bankanna í málum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Hvað veldur því, að hann gerir það ekki?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook