14.7.2010 | 09:17
Skattar hafa hegðunaráhrif
Ég var hissa á að lesa athugasemd Guðmundar Arnar Jónssonar fjármálaverkfræðings við blogg mitt hér á dögunum um styrki fyrirtækja til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Hann fullyrti, að fyrirtæki þyrftu ekki að gera ráðstafanir til að létta skattbyrði sína, því að þau gætu ætíð velt sköttum á sig út í verðlag.
Vitaskuld hafa skattar hegðunaráhrif, jafnt skattar á fyrirtæki og einstaklinga. Þetta er ástæðan til þess, að mörg ríki heims hafa gripið til þess ráðs að lækka skatta á fyrirtæki. Vilja þau með því auka fjárfestingu og örva vöxt atvinnulífsins.
Sérfræðingar O. E. C. D. komust einmitt nýlega að þeirri niðurstöðu í rannsókn, að skattar á fyrirtæki væru skaðsamlegastir allra skatta fyrir hagvöxt. (Sjálfur er ég raunar þeirrar skoðunar, að það skipti ekki mestu máli til langs tíma litið, hver sé upphaflega skattlagður. Þegar grannt er skoðað, er skattstofninn til dæmis hinn sami, hvort sem lagður er á virðisaukaskattur eða tekjuskattur, eins og Pascal Salin prófessor leiðir sterk rök að í bók, sem ég ritstýrði árið 2007, Cutting Taxes to Increase Prosperity.)
Þegar fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum vorið 1991, ákvað hún að leggja niður aðstöðugjald, sem var veltuskattur á fyrirtæki, og lækka tekjuskatt á fyrirtæki. Þetta gerði hún í samráði við aðila vinnumarkaðarins, sem vildu afstýra atvinnuleysi. Þessi aðgerð tókst vonum framar, eins og ég sýni í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, en hún kom út í árslok 2009.
Það verður aldrei nógsamlega brýnt fyrir mönnum, að skattstofnar eru til langs tíma litið breytilegir eftir skattheimtu: Kakan minnkar, ef ríkið tekur stærri sneið. Hún stækkar, ef það tekur minni sneið. Þessi áhrif koma ekki alltaf strax fram, en þau koma fram.
Edward Prescott, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur rannsakað tengsl vinnusemi og skattlagningar. Hann telur engan vafa leika á því, að þessi tengsl séu öfug og sterk: Því hærri sem skattar séu, því minni verði löngun manna til að vinna á hinum opinbera vinnumarkaði, þar sem tekjur þeirra eru skattlagðar.
Rannsóknir Prescotts styðja Laffer-bogann fræga: Með aukinni skattheimtu aukast fyrst skatttekjur ríkisins, en eftir að ákveðnu marki hefur verið náð, minnka þær aftur. Bestu dæmin eru Sviss og Svíþjóð. Skattheimta er miklu meiri í Svíþjóð en Sviss, en skatttekjur á hvern mann svipaðar. Það er, af því að skattstofninn er miklu stærri í Sviss. Lítil sneið af stórri köku getur verið jafnstór og stór sneið af lítilli köku. Í Sviss er meiri verðmætasköpun en í Svíþjóð. Þar borgar sig frekar að græða.
Ég benti í bók minni á eitt skýrt dæmi frá Íslandi: Húsaleigu. Þegar skattheimta var þar lækkuð úr um og yfir 40% niður í 10% (fjármagnstekjuskattur kom í stað venjulegs tekjuskatts), jókst framboð á leiguhúsnæði með þeim afleiðingum, að eftir nokkur ár voru skatttekjur ríkisins af húsaleigu orðnar hinar sömu og áður á sama verðlagi. Með öðrum orðum gaf 10% skattur af sér hið sama og 40% skattur.
Skattalækkanir eru fyrirtækjum í hag ekki síður en öllum almenningi. Þess vegna kann það að vera þáttur í eðlilegri og lögmætri starfsemi þeirra að berjast fyrir skattalækkunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:18 | Facebook