9.7.2010 | 16:07
Fáránleg skrif Egils Helgasonar
Fyrir nokkru vék Egill Helgason heldur óvinsamlega að mér, um leið og hann brá skildi fyrir Þorvald Gylfason prófessor:
Hópur manna er sveittur við að reyna að níða æruna af Þorvaldi Gylfasyni prófessor. Þetta á sér reyndar langa sögu, Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur lagt hatur á Þorvald Gylfason og fjölskyldu hans í marga áratugi. Aðalástæðan er þó kannski sú að Þorvaldur hefur gagnrýnt þá sem ekki má gagnrýna.
Þegar ég sá þessi fáránlegu skrif Egils, var ég raunar efins um, hvort ég ætti að svara þeim. Ég hef um annað að hugsa í rannsóknarleyfi mínu erlendis, þar sem ég sit við að ljúka miklu verki, sem ég hef unnið að í fimmtán ár. En sennilega er það rétt, sem Bjarni Benediktsson sagði Matthíasi Johannessen: Alltaf að svara, alltaf að svara.
Í fyrsta lagi er ég ekki eini maðurinn, sem hef vikið að Þorvaldi Gylfasyni síðustu misserin. Margir aðrir, meðal annars á Eyjunni og fréttavefnum amx.is, hafa deilt á hann fyrir fylgispekt við Baugsfeðga, en Þorvaldur hélt því fram á sínum tíma (vorið 2005), að rannsókn lögreglunnar á fjárreiðum þeirra væri óeðlileg. Hann hefur ekki heldur gagnrýnt þá einu orði þrátt fyrir hinar ótrúlegu uppljóstranir nýlega um fjárglæfra þeirra.
Í öðru lagi fer því fjarri, að ég hati Þorvald eða fjölskyldu hans. Það fólk gegnir satt að segja engu hlutverki í tilfinningalífi mínu. Ég benti hins vegar á það í blaðagrein árið 1979, að faðir Þorvaldar, Gylfi Þ. Gíslason, hefði gerst sekur um ritstuld. Mikið af bók hans, Jafnaðarstefnunni frá 1977, væri þýtt beint eða endursagt upp úr bókinni Equality and Efficiency eftir bandaríska hagfræðinginn Arthur Okun, en hvergi getið heimilda.
(Má ég benda á það, um leið og einhverjir lesendur æpa á mig í huganum, að ég hafi sjálfur orðið uppvís að ritstuldi, að það er rangt: Ég var dæmdur í Hæstarétti fyrir brot á höfundarrétti Halldórs Kiljans Laxness í fyrsta bindi ævisögu hans, sem ég birti árið 2003. Ég leyndi því þar hvergi, að ég notaði minningabækur hans um æskuárin. Ég hélt í grandaleysi, að ég mætti nota þessi verk á svipaðan hátt í bók minni og Laxness hafði til dæmis notað dagbækur Magnúsar Hjaltasonar í Heimsljósi. Ég reyndist hafa rangt fyrir mér samkvæmt dómi Hæstaréttar, enda skrifaði ég annað og þriðja bindi ævisögunnar öðru vísi en hið fyrsta.)
Eflaust hefur blaðagrein mín frá 1979 orðið til þess, að einhverjir úr fjölskyldu Gylfa Þ. Gíslasonar hafi lagt fæð á mig. Þeir Gylfi og Þorvaldur greiddu til dæmis báðir atkvæði gegn því í Viðskiptadeild haustið 1985, að ég yrði ráðinn þar stundakennari, eftir að ég kom heim úr háskólanámi. Þorsteinn, bróðir Þorvaldar, var mér líka mjög óvinsamlegur, eftir að greinin birtist, en hann kenndi mér heimspeki í Háskóla Íslands (og var um margt mjög góður kennari). Í blaðagreinum kallaði hann mig sauð í sauðargæru.
Vilmundur Gylfason, bróðir þeirra Þorvaldar og Þorsteins, lét þetta mál hins vegar ekki hafa nein áhrif á sig, og vorum við góðir vinir alla tíð, enda var hann enginn veifiskati og lítt orðsjúkur.
Í þriðja lagi tel ég, að Þorvaldur Gylfason hafi margt vel gert og vel sagt um dagana, en hann sé ekki með sjálfum sér, þegar hann skrifi um Davíð Oddsson (sem hann hatar bersýnilega blóðugu hatri) eða um sum önnur tilfinningamál sín. Hann geti líka átt það til að vera ómálefnalegur. Ég hef aðallega tekið tvö dæmi í gagnrýni minni:
Þorvaldur hélt því fram fyrir nokkrum árum, að vaxtamunur væri hér miklu meiri en í grannríkjunum. Ég skoðaði útreikninga hans. Hann hafði borið saman innlánsvexti á sparisjóðsbókum, sem fáir sem engir nota lengur, og hæstu útlánsvexti. Þetta voru ekki sómasamleg vinnubrögð. Til er viðurkennd aðferð til að reikna út vaxtamun, og þegar henni var beitt, reyndist vaxtamunur hér alls ekki meiri en í grannríkjunum.
Þorvaldur hélt því einnig fram fyrir nokkrum árum, að tekjuskipting hefði orðið hér miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum á árunum fram til 2004. Ég skoðaði útreikninga hans. Hann hafði tekið með í tölum um Gini-stuðla (sem er ein aðferð, en ekki sú eina, til að mæla ójafna tekjuskiptingu) söluhagnað af hlutabréfum. Það var ekki gert í þeim tölum, sem hann notaði frá öðrum löndum. Hann hafði með öðrum orðum borið saman það, sem ósambærilegt var. Þegar Gini-stuðlar voru reiknaðir eins fyrir Ísland annars vegar og Norðurlöndin fjögur, Noreg, Danmörk, Svíþjóð og Finnland, hins vegar, kom í ljós, að tekjuskipting hér var síst ójafnari árið 2004 en þar.
Þorvaldur hefur aldrei leiðrétt þessar reikningsskekkjur sínar.
En við Egil Helgason vil ég segja hið sama og Grettir kvað forðum: Það er undarlega gert að tala sneyðilega til saklausra manna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook