8.7.2010 | 15:20
Þjóðareðli Brasilíumanna
Á vormisseri 2010 hef ég verið í rannsóknarleyfi frá Háskóla Íslands. Hef ég meðal annars ferðast talsvert um Vesturheim. Síðastliðna helgi, dagana 1.4. júlí, sótti ég fróðlega málstofu í borginni Petrópolis í Brasilíu. Hún var um kenningar brasilíska fjölfræðingsins Gilbertos Freyres, en hann skrifaði flestar bækur sínar á fyrra helmingi tuttugustu aldar.
Málstofan fór fram á portúgölsku, og var hún mér kærkomin æfing í þessu máli, sem ég ákvað á útmánuðum 2006 að reyna að læra. Gat ég fylgst með öllu, sem sagt var. Mér gekk líka stórslysalaust að koma á portúgölsku orðum að eigin hugmyndum.
Freyre reyndi hið sama fyrir Brasilíumenn og Sigurður Nordal fyrir Íslendinga, að skilgreina eðli þeirra eða sál. Hvað gerði Brasilíumenn að því, sem þeir voru og eru? Hvers vegna gátu þeir borið höfuðið hátt þrátt fyrir allt? (Í Íslenskri menningu lýsti Nordal sjóræningjunum, sem hröktust hingað út á Dumbshaf á níundu öld, sem stórkostlegum hetjum.)
Freyre hélt því fram, að ýmis sérkenni Brasilíumanna mætti rekja til Portúgala, sem námu landið og stjórnuðu frá 1532 til 1808. Þeir hefðu sameinað í sér margt úr evrópskri og múslimskri menningu. Þeir hefðu til dæmis ekki verið jafnsiðavandir og engilsaxneskir hreintrúarmenn, púritanar, sem námu Norður-Ameríku. (Fjölkvæni tíðkaðist meðal múslima; Brasilíumenn hafa flestir lítið á móti munúð). Portúgalir hefðu ekki heldur haft eins sterka kynþáttafordóma og margar aðrar vestrænar þjóðir.
Víst er, að hvergi hafa kynþættir blandast eins rækilega saman og í Brasilíu. Tölur um skiptingu þjóðarinnar í kynþætti eru að vísu grunsamlegar, því að hlutfall hvítra manna er skráð allt of hátt miðað við það, sem ég sé þar sjálfur. En meiri hluti landsmanna eru kynblendingar. Eins og Freyre sagði, er engu líkara en nýr kynþáttur sé að vera til í Brasilíu.
Talsvert var rætt í málstofunni um þrælahald, sem lagðist síðar niður í Brasilíu samkvæmt lögum en víðast annars staðar, ekki fyrr en 1889. Ég benti á það, að Adam Smith og aðrir frjálslyndir hagfræðingar hefðu sýnt fram á, að þrælahald væri óhagkvæmt: Maður er meira virði sem frjáls maður en þræll, því að þá hefur hann hag af því að uppgötva og rækta hæfileika sína.
Lítill vafi er á því, að þrælahald hafði mikil og vond áhrif á brasilískt þjóðlíf.
Ég benti einnig á það, sem Gary Becker hefur leitt sterk rök að, meðal annars í bókinni The Economics of Discrimination, að mismunun bitnar ekki síður á þeim, sem mismunar, en hinum, sem mismunað er. Með fordómum og mismunun neita menn sér um þá hæfileika, sem býr í fórnarlömbum þeirra.
Í því sambandi sagði ég söguna af skoðunarferð minni um Pretoríu, höfuðborg Suður-Afríku, haustið 1987 (á meðan minnihlutastjórn hvítra manna hafði enn völd og framfylgdi aðskilnaðarstefnu sinni, apartheid). Við leiðsögumaður minn ókum fram hjá kvikmyndahúsi. Ég spurði, hvort kvikmyndahús væru opin mönnum af öllum kynþáttum. Já, var svarað. Það gerðist nýlega. Eigendur kvikmyndahúsanna höfðu lokað þeim um hríð til að mótmæla banni við því að selja fólki af öllum kynþáttum aðgang. Ég hugsaði með sjálfum mér: Hvort skyldi kvikmyndahúsaeigendunum hafa gengið til virðing fyrir almennum mannréttindum eða löngun í fleiri viðskiptavini? Hvort réði gerðum þeirra náungakærleikur eða matarást?
Aðrir þátttakendur í málstofunni voru flestir brasilískir háskólakennarar, ýmist í heimspeki, mannfræði eða hagfræði. Við skiptumst meðal annars á skoðunum um það, hvort Brasilíumenn ættu að fara einhverja þriðju leið milli engilsaxnesks kapítalisma og hinnar portúgölsku nýlenduhefðar, eins og Gilberto Freyre lagði sjálfur til.
Ég benti á það, að kapítalisminn væri ekkert annað en umgerð utan um frjálst val einstaklinganna. Ef menn vilja engu raska, þá neyðir enginn þá til þess: Menn geta farið leiðar sinnar á hestum, þótt bíllinn sé kominn til sögunnar. Sósíalismi er framkvæmanlegur innan kapítalismans, eins og ísraelsku samyrkjubúin eru glöggt dæmi um. En kapítalisminn er ekki framkvæmanlegur innan sósíalismans, því að sósíalismi leyfir ekki frjálst val.
Hafði ég bæði gagn og gaman af þessari ráðstefnu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:21 | Facebook