29.6.2010 | 11:07
Góður landsfundur
Bjarni Benediktsson fékk endurnýjað umboð til að leiða Sjálfstæðisflokkinn á landsfundinum um helgina. Bjarni tók við flokknum við afar erfiðar aðstæður, raunar í rústum, og hefur ásamt samstarfsfólki sínu unnið gott starf við að endurreisa hann. Þetta bar árangur í byggðakosningunum í vor: Þótt flokkurinn tapaði fylgi miðað við byggðakosningarnar fyrir fjórum árum, bætti hann við sig talsverðu fylgi miðað við þingkosningarnar vorið 2009. Bjarni er vaxandi stjórnmálamaður.
Mér líst líka vel á nýjan varaformann flokksins, Ólöfu Nordal. Hún hefur komið skörulega fram og mælt skynsamlega, þar sem ég hef séð til hennar. Vonandi áttar hún sig á því og hefur ef til vill þegar gert það að forysta Sjálfstæðisflokksins á aðeins að taka hæfilegt mark á kaffihúsaspekingunum reykvísku, fastagestunum í Sífri Egils; þeir munu aldrei kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Forysta flokksins á þess í stað að hlusta á fólkið í landinu.
Sérlega ánægjulegt var að sjá, eins og Björn Bjarnason bloggaði um, að Kjartan Gunnarsson skyldi komast á landsfundinn, en hann hefur glímt við erfið veikindi síðustu mánuði. Kjartan var allra manna lengst framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, í meira en aldarfjórðung, og skilaði þar frábæru verki.
Þórlindur Kjartansson, fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, var mjög ósanngjarn í ádeilu sinni á landsfundinn, sem sumir fjölmiðlar gerðu mikið úr. Þórlindur stóð sig eflaust vel við að skipuleggja áróður í Bretlandi fyrir Icesave-reikningunum, eins og hann var í fullu starfi við í Landsbankanum fyrir hrun. En þörf er fyrir öðru vísi vinnubrögð í stjórnmálaflokki en banka, og Íslendingar eru ekki Bretar.
Rætt er um Evrópusinna í Sjálfstæðisflokknum. Ég mæli þó áreiðanlega ekki aðeins fyrir sjálfan mig, heldur marga aðra, þegar ég segist vera Evrópusinni. Ísland á heima í Evrópu. Menning okkar er evrópsk. En á Ísland heima í Evrópusambandinu? Það er önnur saga. Noregur og Sviss eru jafngóð Evrópuríki og Danmörk og Malta. Þau hafa ekki talið sér í hag að ganga í Evrópusambandið.
Þess vegna ætti að ræða um Evrópusambandssinna. Mér fundust þeir menn tala af fullmiklum þjósti á þessum landsfundi og eftir hann. Vildu þeir, að flokkurinn færi gegn þeirri skoðun yfirgnæfandi meiri hluta landsmanna, að ekki sé tímabært að ganga í Evrópusambandið? Það hefur ekki reynst neinum fjöldaflokki vel að skeyta engu eindregnum þjóðarvilja.
Þeir fáu sjálfstæðismenn, sem telja Evrópusambandsaðild svo brýna, að ráða eigi atkvæði þeirra, hafa sennilega flestir kosið Samfylkinguna í síðustu kosningum. Fylgisvon Sjálfstæðisflokksins liggur ekki síst í öllum hinum, sem telja stjórnvöld hafa tekið allt of linlega á Icesave-málinu og Evrópusambandið þar gengið erinda Breta og Hollendinga.
Sóknarfæri Sjálfstæðisflokksins liggur einnig og ekki síst í öllum þeim, sem vilja nægilegt svigrúm einstaklinga til að bæta kjör sín og sinna með dugnaði og fyrirhyggju öðrum að skaðlausu. Þetta svigrúm hefur núverandi vinstri stjórn verið að þrengja.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook