27.6.2010 | 14:45
Missögn Páls Baugsvins
Í leiðara Fréttablaðsins mánudaginn 21. júní 2010 skrifar Páll Baldvin Baldvinsson um tónlistarhús í Reykjavík. Þar fer hann rangt með, er hann segir, að Björn Bjarnason hafi gert samninginn um húsið við Björgólf Guðmundsson. Björn hafði látið af stöðu menntamálaráðherra, þegar samningurinn var gerður, eins og hann bendir sjálfur á.
Fróðlegt verður að vita, hvort Páll Baldvin leiðréttir villu sína og biður Björn afsökunar. Ég býst síður við því, enda hef ég reynt hann að öðru. Páll Baldvin var bókmenntagagnrýnandi Stöðvar tvö haustið 2003. Hinn 22. desember ritdæmdi hann fyrsta bindi ævisögu minnar um Halldór Kiljan Laxness í beinni útsendingu. Hann sagði þar, að athygli vekti, hversu fáar myndir væru í bókinni. Aðeins væri í henni ein myndaörk.
Í bókinni eru þrjár myndaarkir, eins og allir lesendur gátu og geta enn séð eigin augum. Með þessu kom Páll Baldvin upp um það, að hann hafði ekki einu sinni flett bókinni. Hann hafði flýtt sér í útsendinguna með tölvuskeyti frá einhverjum fjandmönnum mínum, sem höfðu haft nokkra daga til að skoða bókina, og sett dóm sinn saman úr þessum skeytum.
Annað dæmi úr sömu útsendingu var, að Páll Baldvin sagði mig endurtaka í bókinni gamla þjóðsögu um, að Einar Benediktsson hefði verið drukkinn á Alþingishátíðinni 1930, en þá sögu hefði Guðjón Friðriksson hrakið í ævisögu Einars. En ég sagði hvergi í bók minni, að Einar hefði verið drukkinn á Alþingishátíðinni.
Brot Páls Baldvins er hið sama og Guðbrands Jónssonar, sem skrifaði útvarpsgagnrýni í Vísi fyrir stríð. Þar sagði hann 19. nóvember 1938 um útvarpserindi Björns Karels Þórólfssonar: Efnisríkt, en of þurrt, og flutningurinn var of þver og svæfandi.
Sá hængur var á, að erindið hafði fallið niður, en þess í stað var útvarpað minningarathöfn um látna sjómenn. Öll þjóðin hló, þegar Guðbrandur afsakaði sig með því, að hann hefði lesið rangt af hraðrituðum minnisblöðum sínum. Jón Helgason prófessor orti fræga vísu um guðbrenska hraðritun.
Guðbrandur og minnisblöðin; Páll Baldvin og tölvuskeytin. Þetta var sama brot. En reginmunur var á viðbrögðum. Páll Baldvin er í þeirri klíku vinstri sinnaðra menntamanna, sem seldi sig Baugsfeðgum á sínum tíma og lætur enn að sér kveða í menningarlífi landsmanna. Enginn klíkubróðir hans gerði athugasemd við brot hans.
Guðbrandur hrökklaðist frá Vísi, en Páll Baldvin hélt áfram að vinna fyrir Baugsfeðga eins og ekkert hefði í skorist, enda eru þeir óvandir að starfsliði.
Leiðréttir hann nú missögn sína um Björn og biður hann afsökunar?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.6.2010 kl. 11:10 | Facebook