11.6.2010 | 16:00
Tolkien og Baugsmálið
Fróðlegt er að sjá, hversu mikil áhrif Völsunga saga og Eddukvæði sum, til dæmis Atlakviða, Fáfnismál og Sigurdrífumál, hafa haft á þýska tónskáldið Richard Wagner annars vegar og enska rithöfundinn og fornfræðinginn J. R. R. Tolkien hins vegar. Bera Niflungahringur Wagners og Hringadróttins saga Tolkiens því glöggt vitni.
Eitt mikilvægasta minni þessara verka allra er hringur, baugur, tákn gullsins, sem öllu spillir, rógmálmsins, sem vekur upp vondar hvatir og veldur ógæfu.
Tolkien yrkir í fyrsta bindi Hringadróttins sögu (The Lord of the Rings), Föruneyti hringsins, sem kom út á íslensku í þýðingu Þorsteins Thorarensens 1980 (en ljóðin þýddi Geir Kristjánsson):
One Ring to rule them all, One Ring to find them,
One Ring to bring them all and in the darkness bind them.
Þetta þýddi Geir svo:
Einn Hringur ræður þeim öllum, einn skal hann hina finna,
einn skal safna þeim öllum og um sinn fjötur spinna.
Jafnframt því sem íslensk fortíð hafði áhrif á Tolkien, varpar hann í verki sínu ljósi á íslenska samtíð. Engu er líkara en Tolkien hafi séð Baug fyrir, sem réð mörgum fjölmiðlamönnum, stjórnmálamönnum (og jafnvel dómurum?) á Íslandi um og eftir 2002, þegar hann átti morð fjár, sem hann hafði sótt til Bretlands. Þessi Baugur, þessi Hringur, reyndi svo sannarlega að spinna fjötur sinn um Íslendinga. Margir voru í föruneyti hringsins.
Og enn ræður Baugurinn, Hringurinn, miklu um verðmyndun á markaði og skoðanamyndun í fjölmiðlum á Íslandi. Er það ekki umhugsunarefni?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook