Sósíalismi andskotans

jonasgeirvidbord.jpgVilmundur Jónsson landlæknir mun hafa smíðað orðasambandið „sósíalisma andskotans“. Hann átti við það, þegar ríkisafskipti hafa þveröfugar afleiðingar við það, sem þeim er ætlað að hafa, til dæmis þegar ráðstafanir til að hjálpa bágstöddum verða auðmönnum einum til góðs. Ótal dæmi eru til um það, að ríkisafskipti gagnist öðrum á borði en í orði.

Eitt skýrasta dæmið um sósíalisma andskotans er, þegar ríkið tekur að sér að aðstoða fjárglæframenn við ævintýri þeirra, leyfir þeim að hirða gróðann, er vel gengur, en tekur á sig tapið, þegar illa fer. Halldór Laxness leggur Umba í munn skemmtilega klausu um hraðfrystihús í Kristnihaldi undir jökli:

Spaugararnir reisa þau fyrir styrk frá ríkinu, síðan fá þeir styrk af ríkinu til að reka þau, þvínæst láta þeir ríkið borga allar skuldir en verða seinast gjaldþrota og láta ríkið bera gjaldþrotið. Ef svo slysalega vill til að einhverntíma kemur eyrir í kassann þá fara þessir grínistar út að skemta sér.

 

Sem betur fer er af sú tíð, þegar útgerð og fiskvinnsla voru byrðar á ríkissjóði. Íslenskur sjávarútvegur hefur rétt úr kútnum, ekki síst vegna kvótakerfisins, sem er öfundarefni annarra þjóða.

Sósíalismi andskotans er þó enn til. Eitt skýrasta og átakanlegasta dæmið um hann á því herrans ári 2010 er, að ríkið hefur tekið að sér að halda á floti fyrirtækjum Baugsfeðga, en leyfa þeim að stjórna þeim áfram. Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnar Högum, þótt faðir hans sé þar skráður stjórnarformaður, og 365-miðlum, þótt eiginkona hans sé þar skráður stjórnarformaður.

Hagar skulda fimmtíu milljarða! Engar líkur eru á því, að Jón Ásgeir geti nokkru sinni goldið þá skuld. Samt fær hann að stjórna fyrirtækinu áfram. Ekki nóg með það: Honum er leyft að dæla fé úr þessu fyrirtæki ríkisins í annað fyrirtæki ríkisins, 365-miðla. Af auglýsingum Haga renna 96% til Fréttablaðsins, eins og könnun sýndi á sínum tíma. (Raunar þarf enga könnun til: Það nægir að fletta blaðinu.)

Maðurinn, sem tæmdi íslensku bankana, fær enn að stjórna verðmyndun og skoðanamyndun í landinu. Mikil er ábyrgð þeirra tveggja banka, Landsbankans og Arion banka, sem leyfa þetta, og hlýtur sérstakur saksóknari um bankahrunið að taka þetta mál til rannsóknar, þegar tími vinnst til.

Þegar fréttist af því á dögunum, að Jón Ásgeir ætlaði með forstöðumönnum 365-miðla í skemmtiferð vestur til Kaliforníu (en hún var kölluð því virðulega nafni innkaupaferð), rifjuðust upp fyrir mér orð Nóbelskáldsins: „Ef svo slysalega vill til að einhverntíma kemur eyrir í kassann þá fara þessir grínistar út að skemta sér.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband