Sjálfstæðisflokkurinn hjarnar við

Annað eins áfall og bankahrunið var íslensku þjóðinni hlaut að hafa víðtæk stjórnmálaáhrif. Komu þau áhrif að sumu leyti fram í þingkosningunum vorið 2009, þegar Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð. Þeirra sá að öðru leyti stað í byggðakosningunum í gær, þegar vinstriflokkarnir tveir í ríkisstjórn biðu herfilegan ósigur, en Sjálfstæðisflokkurinn hjarnaði við, jafnframt því sem andófs- og jafnvel gamanframboð hlutu verulegt fylgi.

Þetta var vitaskuld enginn sérstakur sigur Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega þegar litið er á tapið í Reykjavík og á Akureyri. Ég er kunnugri í Reykjavík en á Akureyri og fullyrði, að tapið í höfuðborginni var þrátt fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra, en ekki vegna hennar. Hún bjargaði því, sem bjargað varð, eftir vandræðaganginn fyrstu tvö ár kjörtímabilsins.

En niðurstaðan var almennt skárri en sjálfstæðismenn óttuðust. Og sums staðar vann flokkurinn góða sigra, sérstaklega í Vestmannaeyjum og Reykjanesbæ.

Sumir spekingar spá endalokum „fjórflokksins“. Það er fljótfærni. Ástæðan til þess, að kjósendur á Íslandi hafa í aðalatriðum skipt sér í fjóra flokka í áttatíu ár, er, að fjórar stjórnmálahugmyndir hafa átt hér djúpar rætur.

Ein hugmyndin er sú, sem kommúnistaflokkurinn var stofnaður um 1930, síðan Sósíalistaflokkurinn, þá Alþýðubandalagið og loks Vinstri hreyfingin — grænt framboð. Hún er, að kapítalisminn sé svo óréttlátur, að ekki verði við unað. Róttækra aðgerða sé þörf, eigi íslenska þjóðin og raunar mannkyn allt að lifa af.

Önnur hugmyndin er sú, sem Alþýðuflokkurinn var stofnaður um 1916, en Samfylkingin er í meginatriðum rökrétt framhald hans. Hún er, að Íslendingar eigi samleið með öðrum norrænum þjóðum um lýðræði og mál- og hugsunarfrelsi, en einnig víðtæka tekjujöfnun á vegum hins opinbera.

Þriðja hugmyndin er sú, sem Framsóknarflokkurinn var stofnaður um 1916. Hún er, að sneiða beri fram hjá „öfgum“ eins og óheftri samkeppni annars vegar og fullkominni sameign á framleiðslutækjunum hins vegar. Jafnframt beri að styðja með ráðum og dáð fornar atvinnugreinar þjóðarinnar og tryggja dreifða byggð í landinu.

Fjórða hugmyndin hefur átt hér dýpstar rætur, og hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið merkisberi hennar frá stofnun hans 1929, er hinir gömlu flokkar sjálfstæðisbaráttunnar runnu í raun saman. Hún er, að affarasælast sé að virkja ávinningsvonina í almannaþágu. Menn vinni mest og best, þegar þeir fái að njóta sjálfir ávaxta erfiðis síns, hugvits eða jafnvel heppni. Allir séu skeikulir og geri mistök, en þegar valdsmenn geri mistök, bitni þau ekki aðeins á þeim sjálfum, heldur venjulega öllum öðrum líka. Þess vegna beri að takmarka valdið.

Ég sé ekki, að andófsframboðin í Reykjavík og á Akureyri breyti miklu um þessar fjórar stjórnmálahugmyndir, þótt vissulega sé mikið fylgi þeirra sögulegt og raunar stórmerkilegt. Þessi framboð eru því líkleg til að verða skammlíf. Kjósendur munu uppgötva, að hinir nýkjörnu trúnaðarmenn þeirra eru hvorki betri né verri en hinir gömlu, þótt sennilega séu þeir óreyndari. Gamni dagsins fylgir alvara morgundagsins.

Úrslit kosninganna sýna, að sú stjórnmálahugmynd, sem ég kenni hér við Sjálfstæðisflokkinn (en er auðvitað röklega óháð honum), hefur síður en svo verið upprætt á Íslandi þrátt fyrir eindreginn vilja andstæðinga hennar, sérstaklega álitsgjafa hinna ríkisreknu fjölmiðla og Baugsmiðlanna. Um allt land — í Vestmannaeyjum, á Ísafirði, í Reykjanesbæ, Árborg, Garðabæ og miklu víðar — eru til menn, karlar og konur, sem trúa því, að frelsi einstaklinganna sé oftast heppilegra en forsjá hins opinbera, að verðlagning sé iðulega skynsamlegri en skipulagning, að sjálfstýring eigi víðar við en miðstýring.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband