29.5.2010 | 12:02
Gluggi eða spegill?
Mér er minnisstætt, þegar einn merkasti lærimeistari minn, James M. Buchanan, prófessor í hagfræði (sem hlaut Nóbelsverðlaunin 1986), líkti vísindunum við hús með mörgum gluggum á, en líkinguna hafði hann frá Nietzsche, held ég. Þessir gluggar væru misstórir, sagði Buchanan, og frá þeim sæist misvel.
Þessi líking er góð. Með vísindunum horfum við út um glugga, og stundum sjáum við vel þann veruleika, sem við erum að skoða þaðan.
En til eru þeir menn, sem kenna sig við vísindi, en horfa ekki út um glugga, heldur inn í spegil. Þeir hafa bitið í sig einhverjar hugmyndir, sem eru með því orðnar að grillum í kollinum á þeim, og síðan nota þeir hvert tækifæri sem gefst til að endurtaka þessar grillur. Þeir horfa í raun og veru ekki á veruleikann út um gluggann, heldur á sjálfa sig í spegli.
Því miður er þessu svo farið um hagfræðinginn Jón Steinsson. Ungur sat hann við fótskör Þorvaldar Gylfasonar og nam af honum, að sósíalismi gæti hentað í sjávarútvegi, þótt reynslan hefði hrakið hann alls staðar annars staðar. Við þessa grillu hefur Jón ekki losnað. Hefur hann skrifað ófáar greinar um þetta.
Nú hafa komið út tvær vandaðar skýrslur frá tveimur íslenskum háskólum, sem báðar sýna, að fyrningarleiðin svokallaða (sem er ekkert annað en hinn gamli auðlindaskattur sósíalista í nýjum búningi) leiði til öngþveitis og gjaldþrota í sjávarútvegi, en hann er líklega eina von okkar Íslendinga eftir bankahrunið.
Vinstristjórninni líkaði ekki þessi niðurstaða, svo að hún fékk Jón Steinsson til að meta skýrslurnar. Og hann notar tækifærið til að endurtaka grillur sínar. Þessar tvær skýrslur gáfu góða mynd af veruleikanum í sjávarútvegi. En Jón Steinsson horfði ekki á þennan veruleika út um glugga vísindanna, heldur á sjálfan sig í spegli inni fyrir.
Ekki spillir fyrir, að hann kemur sér í mjúkinn hjá núverandi valdhöfum og fær áreiðanlega rausnarlega greitt fyrir matið fyrir að horfa á sjálfan sig í spegli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook