Furðuleg auglýsing frá Háskólaútgáfunni

Í tölvupósti mínum í morgun gat að líta auglýsingu frá Háskólaútgáfunni um nýja bók, Eilífðarvélina. Uppgjör við nýfrjálshyggjuna. Segir þar, að markmið bókarinnar sé meðal annars að gera lesendum „kleift að draga sínar eigin ályktanir um samspil nýfrjálshygggju við aðrar orsakir íslenska bankahrunsins“. Ritstjóri bókarinnar er Kolbeinn Stefánsson (sonur Stefáns Ólafssonar félagsfræðiprófessors).

Orðalagið í auglýsingunni sætir furðu. Orðið „nýfrjálshyggja“ er með baráttublæ, sem ekki fer vel í bók frá háskólaútgáfu. Þetta er nafn, sem óvinir frjálshyggjunnar hafa um hana. Frjálshyggja er ekkert annað en sú hefðbundna stjórnmálakenning, sem hvílir á tveimur meginhugmyndum: 1) Nauðsynlegt er að takmarka valdið og dreifa því, eins og John Locke leiddi rök að, ella verður það misnotað. 2) Og regla getur komist á í atvinnulífinu fyrir tilstilli frjálsrar verðmyndunar í eðlilegri samkeppni, án þess að nokkur einn maður komi slíkri reglu á, eins og Adam Smith sýndi fram á.

Kenning og krafa frjálshyggjunnar er því einföld: Takmörkun og dreifing ríkisvaldsins annars vegar og sjálfsprottin sjálfstýring og samstilling, þar sem við verður komið, hins vegar.

Þessi hefðbundna stjórnmálahugmynd, sem framkvæmd var að nokkru leyti í byltingunni blóðlausu í Bretlandi 1688 og miklu fremur í bandarísku byltingunni 1776, gekk í endurnýjungu lífdaga á seinni hluta tuttugustu aldar, eftir að reynslan af víðtækum ríkisafskiptum hafði sannfært marga um, að af tveimur ófullkomnum kostum til að leysa úr málum okkar mannanna væri verðlagning oft skárri en skipulagning, markaðsviðskipti ósjaldan skárri en ríkisafskipti. Mæltu þeir Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman, Robert Nozick og James M. Buchanan fyrir þessari hugmynd af mestum andlegum þrótti.

Mér er fyrirmunað að sjá, hvernig Háskólaútgáfan getur fullyrt, eins og hún gerir í þessari auglýsingu, að nýfrjálshyggjan sé ein af orsökum íslenska bankahrunsins. Var íslenska hagkerfið frjálsara en í grannríkjunum? Nei. Breytingarnar, sem hér voru gerðar 1991–2004 og heppnuðust mjög vel, — eins og ég sýni fram á í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, — voru í rauninni til að færa hagkerfið í svipað horf og í grannríkjunum. Þetta sést best á því, að Ísland var 10. frjálsasta ríki heims í atvinnumálum árið 2004. Lentu þær níu þjóðir, sem bjuggu við frjálsara atvinnulíf en Ísland, í meiri vandræðum?

Yfir heiminn allan reið haustið 2007 lánsfjárkreppa, sem færðist í aukana haustið 2008 og felldi íslenska bankakerfið. Ástæðan til þess, að íslensku bankarnir hrundu, en ekki bankar grannríkjanna, var, að íslenska ríkið hafði ekki bolmagn til að halda þeim uppi. Íslenska ríkinu var neitað um fyrirgreiðslu í Evrópu, og Bretar bættu gráu ofan á svart með því að beita hryðjuverkalögum gegn íslensku bönkunum. Bönkunum sjálfum var vissulega stjórnað af gáleysi, og eftirlit með þeim var ekki eins nákvæmt og æskilegt hefði verið. En sömu reglur giltu hins vegar um þá og aðra banka á Evrópska efnahagssvæðinu. Hvar kom nýfrjálshyggja þar við sögu? Er það henni að kenna, að menn eru ófullkomnir og mistækir? Að breskir jafnaðarmenn misnotuðu hryðjuverkalögin? Að sumir kapítalistar fara ekki eftir leikreglum kapítalismans, eins og þeir Locke og Smith skilgreindu þær?

Háskóli Íslands hefur haldið marga fundi og ráðstefnur um bankahrunið. Ég er oft sakaður um að vera einn af þeim, sem beri ábyrgð á hruninu. Mér hefur ekki verið boðið að svara fyrir mig á einum einasta þessara funda. Ég skora því á höfunda þessarar bókar í rökræður um frjálshyggju og kreppur, þar á meðal bankahrunið íslenska, á hausti komanda, þegar skólar hefja aftur starfsemi sína. Ég er reiðubúinn til að mæta þeim, hvar sem er, í Háskóla Íslands, í framhaldsskólum, í útvarpsþáttum eða í sjónvarpssal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband