Hvað skýrir hatrið á Davíð?

365_davi_oddsson_4.jpgÉg hef stundum velt því fyrir mér, hvað skýri hatrið á Davíð Oddssyni, sem var orðið svo sjúklegt skömmu fyrir bankahrunið íslenska haustið 2008, að hið eina, sem komst að hjá ráðherrum Samfylkingarinnar (og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur), þegar Davíð gerði sér ferð á ríkisstjórnarfund í því skyni að vara við yfirvofandi hruni, var, að hann hefði farið út fyrir mörk embættis síns!

Ein skýringin blasir auðvitað við. Rógsvél þeirra, sem réðu yfir gullinu, — en það kölluðu fornmenn rógmálm með nokkrum sanni, — malaði sí og æ. Baugsfeðgar ásamt þeim Pálma og Sigga í Fons og viðskiptafélögum þeirra siguðu leigupennum eins og Ólafi Arnarsyni, Hallgrími Helgasyni, Guðmundi Andra Thorssyni og Þorvaldi Gylfasyni á Davíð. Þótt þessir pennar væru vissulega misjafnlega beittir, hafði þetta vitaskuld áhrif. Dropinn holar steininn.

En ég rakst á grúski mínu á tvær tilvitnanir, sem sýna, að þetta er auðvitað ekkert nýtt. Þýska skáldið Gottfried August Bürger orti þegar árið 1786:

Wenn dich die Lästerzunge sticht,
So laß dir dies zum Troste sagen:
Die schlechtsten Früchte sind es nicht,
Woran die Wespen nagen.

 

Þetta íslenskaði Hannes Hafstein svo (en margir halda, að hann hafi raunar frumort þetta):

Taktu’ekki níðróginn nærri þér.
Það næsta gömul er saga,
að lakasti gróðurinn ekki það er,
sem ormarnir helst vilja naga.

 

Og Björn M. Ólsen, einhver færasti vísindamaður okkar á öndverðri tuttugustu öld og fyrsti rektor Háskóla Íslands, sagði í Óðni 2005:

Enginn maður hefur verið lastaður eins mikið og Hannes Hafstein, á engan mann hefur jafnmiklu logið verið. Og það er ekki svo óeðlilegt, því að öfundin er skuggi mikilmennskunnar, en rógurinn eltir aftur öfundina eins og skuggi.

 

Þetta eru orð að sönnu og eiga enn við: Öfundin er skuggi mikilmennskunnar, en rógurinn eltir aftur öfundina eins og skuggi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband