Ósammála Sigga í Fons

crop_260x_990122.jpgSigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður (sem stundum er kallaður Siggi í Fons, af því að hann var stjórnarformaður Fons síðustu misserin fyrir hrun, þótt vinur hans, Pálmi Haraldsson, ætti fyrirtækið) hefur sent slitastjórn Glitnis bréf, þar sem hann mótmælir harðlega „rannsóknargeggjun“ þeirri, sem ríði nú yfir landið.

Ég er sammála Sigga í Fons um það, að hvergi megi slaka á reglum réttarríkisins í málum, sem beinast að auðjöfrum þeim og útrásarvíkingum, sem hann er málflutningsmaður fyrir, þótt mér gangi frekar til umhyggja um réttarríkið en um launaumslagið.

Þess vegna ól ég eins og Siggi í Fons með mér efasemdir um, að gæsluvarðhald yfir Kaupþingsmönnum væri nauðsynlegt af þeim ástæðum, sem venjulega eru til þess úrræðis: til að afstýra því, að grunaðir menn spilli rannsóknargögnum eða geti sammælst um rangan framburð. Kaupþingsmenn hafa haft átján mánuði til að spilla gögnum eða sammælast um framburð.

Við Siggi í Fons erum sennilega sammála um, að andstætt sé skráðum og óskráðum reglum réttarríkisins að beita gæsluvarðhaldi í því skyni að knýja fram játningar, sem ella hefðu ekki verið gerðar. Því síður er eðlilegt að beita gæsluvarðhaldi til „að sefa reiði almennings“ eins og Steingrímur J. Sigfússon lét aðspurður í ljós von um, að gerðist.

Einnig er óæskilegt, þegar skipulagðar eru einhvers konar sýningar, þar sem hugsanlegir sakamenn eru auðmýktir opinberlega, eða fjölmiðlum leyft á annan hátt að ráða ferðinni. Kennir þar kaldra ráða Evu Joly?

Ég tel hins vegar, ólíkt Sigga í Fons, að rannsaka þurfi öll viðskipti auðjöfranna og útrásarvíkinganna við bankana af fullri einurð, skoða hvern krók og kima. Sannleikurinn í málinu verður að koma í ljós. Það er ekki síst í hag þeim, sem saklausir reynast af lögbrotum. Þeir eru þá hreinsaðir af grun. Þeir, sem sekir reynast um lögbrot, eiga síðan að fá sinn dóm, hvorki harðari né vægari en tíðkast hefur. Tal Sigga í Fons um „rannsóknargeggjun“ er því út í loftið.

Ég er hins vegar hræddur um, að dómstólar muni láta fjölmiðla og dyntótt almenningsálit hafa áhrif á sig. Í Baugsmálinu hafði höfuðpaurinn sjálfur, Jón Ásgeir Jóhannesson, fjölmiðlana og almenningsálitið með sér, svo að dómarnir yfir honum og lagsmönnum hans voru furðuvægir. Nú hafa auðjöfrar og útrásarvíkingar fjölmiðlana marga á móti sér og ekki síður almenningsálitið, svo að dómarnir yfir þeim gætu orðið miklu harðari en okkur myndi þykja eðlilegt nokkrum árum síðar, þegar ró hefði færst yfir. Hvorugt er gott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband