Tvær rímþrautir

Ég leggst stundum í grúsk, þegar ég tek eftir fróðleiksmolum í lestri mínum og rannsóknum. Hvað rímar á móti Laxness? Tómas Guðmundsson leysti þá rímþraut á alkunnan hátt, þegar hann sat einhvern tíma á fjórða áratug tuttugustu aldar með kunningjum sínum á Hressingarskálanum við Austurstræti. Veður var hart úti, snjókoma með hvössum ágangi. Fram hjá höfðu þeir félagar séð ganga tvo þjóðkunna Íslendinga, Halldór Kiljan Laxness rithöfund og Vilhjálmur Þ. Gíslason, skólastjóra og síðar útvarpsstjóra. Tómas kastaði þá fram vísu:

Víst er byljótt. Hér er hann
Halldór Kiljan Laxness,
síst má dylja mætan mann,
meistara Vilhjálm pax, þess.

Vilhjálmur var í Reykjavík þeirrar tíðar stundum kallaður „Villi pax“, því að hann lauk ræðum síðan jafnan á orðunum „Í Guðs friði“. Tómas sagði raunar um hann, að honum væri sýnt um hinar ólíkustu skoðanir og gerði ekki nauðsynlega upp á milli þeirra.

Á dögunum rakst ég á aðra rímþraut. Hvað rímar á móti orðunum Boðn og Hveðn? Verkefnið er að botna vísuhelminginn:

Seint mun þverra Són og Boðn,
seint munu Danir vinna Hveðn.

Són og Boðn voru sem kunnugt er kerin með skáldamiðinum ásanna, og Hveðn er eyja í Eyrarsundi, sem Svíar telja sig eiga. Sveinbjörn Egilsson leysti þessa rímþraut svo á nítjándu öld með botninum:

Fyrr mun laxinn flýja úr Goðn,
og Finnum öllum sneiðast héðn.

Goðn er eyjan Gudenå á Jótlandi. En hvað er héðn? Orðið héðinn merkir skinnfeldur, svo að sennilega hefur skáldið smíðað sjálft orðið „héðn“ fyrir skinnfeldi (í fleirtölu). Þetta orð er hins vegar ekki til í ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands. Merking síðasta vísuorðsins er því, að seint muni Finnar (sem við köllum nú Sama) hætta að geta veitt loðdýr, sem urmull er af á Norðurslóðum, og skorið feldi þeirra sér til fata.

Síðan hef ég rekist á aðra lausn þessarar rímþrautar, annan vísubotn, sem Karl Ísfeld setti saman um miðjan fjórða áratug:

Ekki minnkar Ásgeirs loðn,
olíublettir sjást á Héðn.

Ásgeir Ásgeirsson, seinna forseti Íslands, þótti loðinn í skoðunum og var jafnvel stundum nefndur „Loðgeir“ og ortar um hann vísur. Héðinn Valdimarsson, einn aðalleiðtogi jafnaðarmanna, rak Olíuverslun Íslands, og orti Steinn Steinarr alþekkt kvæði, þegar Héðinn gekk til liðs við kommúnista haustið 1938 og stofnaði Sósíalistaflokkinn. Hér tekur Karl sér örlítið skáldaleyfi og kallar hann Héðn. En rímþrautin er vel af hendi leyst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband