11.5.2010 | 12:45
Framferði Álfheiðar Ingadóttur
Ég bloggaði hér um það í gær, að ráðherrar núverandi ríkisstjórnar væru lítilla sanda og lítilla sæva. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hleypur til dæmis frá tilmælum sínum við Láru V. Júlíusdóttur, formann bankaráðs Seðlabankans, um launahækkun seðlabankastjóra, þegar hún skynjar andstöðu við þessi tilmæli. Hún skilur gamla vinkonu sína, Láru, eftir eina uppi á skeri.
Annað dæmi, sem ég nefndi, var, að Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra vildi flæma Steingrím Ara Arason, forstöðumann Sjúkratrygginga, úr starfi. Fyrsta skrefið átti að vera að veita honum áminningu fyrir að hafa borið greiðslutilhögun ákveðinna bóta undir ríkisendurskoðanda.
Er það alsiða, eins og síðan hefur komið fram, að forstöðumenn ríkisstofnana beri ýmis slík atriði undir ríkisendurskoðun, séu þeir samviskusamir og varfærnir embættismenn (eins og ég veit, að Steingrímur Ari er). Taldi ríkisendurskoðandi fráleitt, að þetta mætti ekki.
Ráðherrann andmælti af talsverðum þótta bloggi mínu hér í gær. Kvaðst hún í einu og öllu hafa farið eftir réttum stjórnsýslureglum, þegar hún tilkynnti Steingrími Ara bréflega, að hún hygðist áminna hann, en hann hefði nokkurra daga frest til andmæla.
Ég get ekki svarað ráðherranum betur en Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður, sem hefur mikla reynslu af svipuðum málum. Hún segir um andmælareglu stjórnsýslulaga í tilefni máls Steingríms Ara:
Lagaákvæðið er auðskilið og ljóst. Ákvörðun, t.d. ákvörðun um áminningu, má ekki taka fyrr en búið er að veita þeim andmælarétt, sem hugsanleg ákvörðun snýr að. Réttur til andmæla er því ekki einvörðungu góð stjórnsýsla heldur er hann lögboðinn skv. stjórnsýslulögum.
Fyrir mörgum árum, meðan ég var lögfræðingur í ráðuneyti, lærði ég að í andmælaréttarbréfi verður orðalag að verða hlutlaust og með engum hætti má gefa til kynna í slíku bréfi að ákvörðun um áminningu liggi þegar fyrir. Það vekur því athygli að í andmælaréttarbréfi ráðherra eru engir fyrirvarar. Þvert á móti. Boðskapur ráðherra er skýr. Hann er búinn að taka ákvörðun. Fyrirsögn bréfsins er: Tilkynning um fyrirhugaða áminningu. Strax í byrjun bréfsins segir að ráðgert sé að áminna. Andmælaréttarbréf ráðherrans virðist því þjóna þeim tilgangi einum að geta sagt, eftirá, að andmælaréttar hafi verið gætt. Slíkur andmælaréttur er lögleysa og um leið afleit stjórnsýsla.
Það vekur furðu að lögleysa af þessu tagi skuli viðhöfð af hálfu ráðherra ekki síst þegar tilefni aðgerða ráðherrans er sagt vera meint brot á góðum starfsháttum í opinberu starfi.
En úr því að ég er með ráðherrann á línunni, ef svo má segja, langar mig til að spyrja hana þriggja spurninga:
- Hvernig finnst þér sem gömlum baráttumanni gegn Evrópusambandinu að sitja í ríkisstjórn, sem sótt hefur um aðild að Evrópusambandinu?
- Hvernig finnst þér sem ötulum stuðningsmanni þjóðlegrar reisnar að sitja í ríkisstjórn, sem etur úr lófa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lætur sér lynda, að hann sé hér handrukkari fyrir Breta?
- Hvernig finnst þér sem áköfum gagnrýnanda auðmanna að sitja í ríkisstjórn, sem vildi greiða skuldir óreiðumanna erlendis, án þess að henni bæri nein lagaskylda til þess?
Á gamalli og merkilegri bók er talað um það, hvað það stoði manninn að eignast allan heiminn, en fyrirgera sálu sinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Facebook