10.5.2010 | 10:38
Litlir karlar í ráðherrastólum

- Forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, lét verða sitt fyrsta verk að hrekja gamlan samstarfsmann sinn, Davíð Oddsson, úr stöðu seðlabankastjóra fyrir engar sakir.
- Jóhanna segir nú ósatt um það, að hún samdi við eftirmann Davíðs, Má Guðmundsson, um góð launakjör. Hún hrökk frá, þegar hún skynjaði andstöðuna við launahækkun bankastjórans, og fórnaði gamalli vinkonu sinni, Láru V. Júlíusdóttur, formanni bankaráðs Seðlabankans.
- Fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, fagnaði handtökum Kaupþingsmanna og gerði þau orð fréttamanns að sínum, að þær myndu vonandi sefa reiði almennings. Nú þykist hann ekki hafa sagt þetta, enda fór hneykslunaralda um landið, þegar þetta heyrðist.
- Langan lista þyrfti til að rekja, hversu margt Steingrímur hefur orðið að éta ofan í sig af fyrri stóryrðum, til dæmis um Icesave-samningana og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
- Heilbrigðisráðherrann, Álfheiður Ingadóttir, tilkynnti Steingrími Ara Arasyni forstöðumanni, að hún ætlaði að veita honum áminningu fyrir að hafa borið greiðslutilhögun ákveðinna bóta undir ríkisendurskoðanda. Mætti hann þó andmæla. Það, sem Steingrímur gerði, var alsiða, auk þess sem Álfheiður braut stjórnsýslulög með því að tilkynna um fyrirætlun sína, áður en hún fengi andmæli hans. Þegar þessi tilraun hennar til valdníðslu mæltist mjög illa fyrir, hætti hún við hana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:40 | Facebook