Réttlætisgyðjan með bundið fyrir augun

373px-berner_iustitia.jpgHér í gær benti ég á það sjálfsagða sjónarmið, að í réttarríki ætti ekki að varpa mönnum í gæsluvarðhald nema í þágu brýnna rannsóknarhagsmuna. Hvorug ástæðan væri gild til gæsluvarðhalds, að ætla að neyða grunaða menn til játninga eða „sefa reiði almennings“ (eins og Steingrímur J. Sigfússon taldi eðlilegt að orða það).

Eyjan tók upp pistil minn undir fyrirsögninni „Hannes hefur áhyggjur af Hreiðari“. Ég finn auðvitað til með Hreiðari Má Sigurðssyni í erfiðleikum hans. En ég hef satt að segja minni áhyggjur af honum en réttarríkinu. Hreiðar Már á að njóta nákvæmlega sama réttar og aðrir menn til eðlilegrar málsmeðferðar. Það á ekki að skipta neinu máli, hvort hann er þessa stundina vinsæll eða ekki. Réttlætisgyðjan er jafnan sýnd með sverð í annarri hendi og vogarskálar réttlætisins í hinni, — en hún er með bundið fyrir augun.

Egill Helgason skrifaði á bloggi sínu, að ég væri ósáttur við handtökur Kaupþingsmanna. Sönnu nær er að segja, að ég væri  ósáttur við orð Steingríms J. Sigfússonar, þótt ég tæki einmitt fram, að ef til vill lægju brýnir rannsóknarhagsmunir (sem ekki hefðu komið fram opinberlega) að baki handtökum Kaupþingsmannanna, og þá gæti ég sætt við þær. 

Mikilvægt er í því sjúklega andrúmslofti, sem er þessa stundina á Íslandi, að missa ekki sjónar á reglum réttarríkisins. Því miður hafa sumir auðjöfranna og útrásarvíkinganna, sem nú eru hvarvetna gerð hróp að, reynt að grafa undan réttarríkinu. Einn þeirra og aðalleiðtogi, Jón Ásgeir Jóhannesson, keypti jafnvel blöð og sjónvarpsstöðvar, sem ráku samfellda rógsherferð gegn lögreglu og saksóknurum í sakamálum hans. Hvar var Egill Helgason þá?

Fróðlegt er í þessu sambandi að lesa leiðara Morgunblaðsins laugardaginn 8. maí 2010:

Enginn getur í hjarta sínu fagnað gæslufangelsun tveggja bankamanna, þótt sú aðgerð kunni að hafa verið óhjákvæmileg. Og gildir hið sama um aðra þá sem í slíkum raunum lenda, hvort sem þeir eiga mikið undir sér eða lítið, sem oftar er. Þar til bærir aðilar hafa gert kröfu um varðhald tveggja manna, rökstutt hana fyrir dómara, sem hefur á hana fallist. Verður því að treysta að ekki sé verið að beita þessa tvo menn meira harðræði en efni standa til. Það er þýðingarmikið að þeir sem hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi í íslensku fjármálalífi séu beittir þeim viðurlögum sem við slíku liggja. En það er einnig þýðingarmikið, hvað sem líður öllum tilfinningum og hversu hátt sem mál eru í umræðunni, að ekki sé neinn réttur brotinn á þeim mönnum sem í hlut eiga. Steingrímur Sigfússon fjármálaráðherra segist vona að handtökur tveggja nafngreindra manna verði „til að sefa óánægju almennings“. Þetta eru mjög óheppileg ummæli og reyndar ótæk. Það getur aldrei verið efnisástæða frelsissviptingar einstaklinga að sú aðgerð muni falla almenningsálitinu vel. Morgunblaðið hefur hvatt til þess og hvetur enn til þess að málefni fjármálafyrirtækja og þeirra sem þar báru mesta ábyrgð verði rannsökuð út í hörgul. En það verður auðvitað að gæta þess að ganga ekki í neinu á lögmætan rétt þess sem sætir rannsókn eða ákæru hverju sinni. Þegar ró færist yfir verður það einnig skoðun alls almennings.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband