8.5.2010 | 11:57
Tilgangur gæsluvarðhalds
Lítill vafi er á því, að mörgum bankamönnum á Íslandi hefur orðið stórlega á, þótt ég minnist orða Lárusar Jónssonar, bankastjóra Útvegsbankans, fyrir nokkrum árum í sjónvarpsþættinum Maður er nefndur um það, að fjölmiðlar eigi ekki að dæma menn, heldur til þess bærir aðilar, dómstólar. Sjálfur var Lárus dæmdur af fjölmiðlum, þótt hann væri síðar sýknaður af dómstólum.
Við Vesturlandabúar höfum á nokkrum öldum komið okkur upp reglum, sem eiga að vernda borgarana fyrir geðþóttastjórn og ofríki. Til dæmis eru menn taldir saklausir, uns sekt þeirra hefur verið sönnuð. Einnig kveður meðalhófsregla laga á um það, að í meðferð mála skuli beita mildustu úrræðum, sem nauðsynleg þykja. Réttarríkið er samheiti allra þessara reglna, og í slíku ríki ráða lögin frekar en mennirnir.
Ég vona, að sérstakur saksóknari í málum, sem tengjast bankahruninu, gangi rösklega til verks. Þeir, sem reynast sekir um lögbrot, eiga að fá sína refsingu, hvorki þyngri né vægari en tíðkast hafa. Saksóknarinn stóð sig vel í rannsókn hins furðulega hleranamáls. Hann leiddi það röggsamlega til lykta.
Nú hefur hann krafist gæsluvarðhalds yfir tveimur Kaupþingsmönnum og fengið þá kröfu samþykkta í Héraðsdómi Reykjavíkur. En hver er tilgangur gæsluvarðhalds? Ég hélt, að hann væri að koma í veg fyrir, að grunaðir menn gætu spillt rannsóknargögnum eða sammælst um rangan framburð. Þessir tveir Kaupþingsmenn hafa haft átján mánuði til þess. Ég sé ekki, hverju gæsluvarðhald yfir þeim breytir um það.
Tilgangur gæsluvarðhalds má að íslenskum lögum ekki vera sá að þvinga grunaða menn til að játa eitthvað, sem þeir myndu ekki játa, væru þeir frjálsir menn. Hann má ekki vera sá að brjóta þá niður andlega, svo að þeir breytist í auðmótanlegan leir í höndum rannsóknaraðila.
Tilgangur gæsluvarðhalds má því síður vera að friða skeikult og hvikult almenningsálit. Það fór um mig hrollur, þegar ég sá ummæli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, sem kvaðst vonast til þess, að handtökur Kaupþingsmannanna tveggja myndu sefa óánægju almennings. Erum við skyndilega stödd í Colosseum, þar sem föngum rómverska heimsveldisins er kastað fyrir ljónin?
Ég vona, að skýringin á gæsluvarðsúrskurðunum yfir Kaupþingsmönnunum tveimur sé sú, að saksóknarinn og héraðsdómarinn hafi í höndum gögn, sem við hin þekkjum ekki, svo að gæsluvarðhald yfir þessum tveimur mönnum sé nauðsynlegt í þágu rannsóknarhagsmuna. Þá get ég sætt mig við þessa úrskurði, en alls ekki, ef tilgangurinn er að þvinga hina grunuðu til játninga eða sefa óánægju almennings.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Facebook