„Pólska leiðin“

Margir Íslendingar eru skiljanlega reiðir vegna bankahrunsins. Þótt lánsfjárkreppan hafi verið alþjóðleg, er ljóst, að íslenskir bankamenn fóru glannalega. Þeir voru of háðir eigendum sínum. Í kringum Jón Ásgeir Jóhannesson, stærsta skuldunaut bankanna, var riðið þétt net sýndarfyrirtækja og málamyndasamninga. Eftir sigur hans í átökunum um fjölmiðlafrumvarpið 2004 virtist hann vera ósnertanlegur, hafinn yfir lög.

Stjórnvöld bera líka einhverja ábyrgð. Leiðtogar stjórnarflokkanna tveggja 2007–2008 tóku sex sinnum á móti Davíð Oddssyni seðlabankastjóra til að hlusta á viðvaranir hans, en höfðust ekki að, eins og greint er frá í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu. Fjármálaeftirlitið hafði bersýnilega ekki heldur burði til að gegna lögmæltu hlutverki sínu.

thorvgylf.jpgHitt er verra, þegar eftiráspekingar nota tækifærið til að ala á sjúklegu hatri og reyna að rjúfa öll grið. Einn þeirra er Þorvaldur Gylfason prófessor, sem lagði til í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag, að „pólska leiðin“ yrði farin á Íslandi. Hún væri fólgin í því að svipta ýmsa fyrrverandi ráðherra og alþingismenn eftirlaunum.

Þorvaldur líkir með þessu framferði kommúnistaflokksins í Póllandi við hegðun (eða öllu heldur aðgerðaleysi) sumra íslenskra stjórnmálamanna. Þetta er fráleitt. Í Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi og kom út hjá Háskólaútgáfunni haustið 2009, er sérstakur kafli um framferði pólskra kommúnista, sem skýrir, hvers vegna ekki var talið eðlilegt, að ýmsir opinberir starfsmenn úr þeirra röðum nytu eftirlauna.

Pólski kommúnistaflokkurinn hrifsaði völdin til sín 1945 í skjóli Rauða hersins rússneska. Hann iðkaði frá upphafi víðtæk kosningasvik, fjöldahandtökur, pyndingar og önnur mannréttindabrot. Tugþúsundir stjórnarandstæðinga voru handteknir. Sýndarréttarhöld fóru fram eins og í Ráðstjórnarríkjunum. Öflug leynilögregla hafði nánar gætur á fólki. Raunalegar lýsingar eru í Svartbók kommúnismans á hlutskipti saklausra manna eins og Kozimierz Moczarski, Witolds Pilecki og Andrzejs Staszek.

Þótt kommúnistar linuðu nokkuð tökin eftir lát Stalíns 1953, voru stjórnmálafangar enn um þrjátíu þúsund árið 1955. Leynilögreglan reið þétt net uppljóstrara, stundaði hleranir og gægðist í einkabréf. Þeir, sem leyfðu sér að láta í ljós gagnrýni, misstu starfið eða lentu í fangelsi. Reynt var að berja Kaþólska kirkjuna niður með öllum ráðum, og prestar hennar voru jafnvel myrtir. Kommúnistar nýttu sér einnig landlægt Gyðingahatur. Verkamenn, sem þóttu óþægir í taumi, voru látnir fara í gegnum „heilsubótargöngin“, en það voru tvær raðir lögreglumanna, sem börðu þá með kylfum. Linntu þessum ósköpum ekki fyrr en upp úr 1986, þegar kommúnistar sáu sér þann kost vænstan að reyna að semja við andstæðinga sína. Eftir 1989 hrökkluðust þeir frá völdum og skildu eftir sárar minningar.

Hvað er sambærilegt á Íslandi við þetta framferði pólskra kommúnista? Öflugur stjórnmálamaður, sem naut mikils trausts, var hér forsætisráðherra 1991–2004 í krafti þingmeirihluta. Jafnvel núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur hrósað honum fyrir gott samstarf. Í tíð hans voru sett stjórnsýslulög og upplýsingalög, sem veittu fólki ríkari vernd en áður. Andstæðingar hans voru ekki veikari en svo, að einn þeirra, Jón Ásgeir Jóhannesson, varð á því tímabili ríkasti maður landsins, annar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, hinn þriðji, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti.

Það er móðgun við hin fjölmörgu fórnarlömb kommúnismans í Póllandi, — við þá Moczarski, Pilecki, Staszek og marga aðra, — að tala um íslenska þingmenn í sömu andrá og pólska kommúnista. Það er líka móðgun við alla upplýsta Íslendinga. Þótt sumir hafi vissulega misst stjórn á sér eftir bankahrunið, á það ekki við um alla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband