6.5.2010 | 20:15
Eru mennirnir ekki læsir?
Ég bloggaði um það fyrir skömmu, að Rannsóknarnefnd Háskólans hefði ekki gert athugasemdir við tvær athafnir Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra, sem spunameistarar Samfylkingarinnar höfðu óspart deilt á. Önnur var hið fræga Kastljóssviðtal við hann í upphafi bankahrunsins, hitt var lán Seðlabankans til viðskiptabankanna.
Einn af spunameisturum Samfylkingarinnar, Gauti B. Eggertsson, ræðst harkalega á mig á bloggi sínu fyrir þetta. Ég fari rangt með, afneiti sannleikanum. Talar hann jafnvel um sérhannaðan veruleika minn í því sambandi. Egill Helgason tekur undir þetta af mikilli velþóknun á bloggi sínu.
Þeir benda á, að margt sé skrifað um lán Seðlabankans til viðskiptabankanna í skýrslunni. En eru mennirnir ekki læsir? Rannsóknarnefndin gerði ekki athugasemdir við þessar athafnir Davíðs, talaði ekki um vanrækslu í því sambandi. Við það átti ég, eins og augljóst er af samhenginu. Ég var að ræða um niðurstöður í skýrslunni, ekki hugleiðingar einstakra nefndarmanna (eða starfsfólks nefndarinnar).
Rannsóknarnefndin gerði aðeins athugasemdir við tvær embættisfærslur Davíðs Oddssonar (og hinna tveggja seðlabankastjóranna), að Icesave-reikningar Landsbankans skyldu ekki vera stöðvaðir og að rétt eyðublöð hefðu ekki verið fyllt út, þegar ríkið gerði kauptilboð í Glitni. Ég svaraði því til á bloggi mínu, að fyrri athugasemdin væri röng, því að Seðlabankinn hafði ekki haft valdheimildir til þessa, en hin síðari væri svo smávægileg, að ekki væri orð á gerandi.
Gauti B. Eggertsson og Egill Helgason verða að gera það upp við sig, hvort þeir vilja vera spunameistarar Samfylkingarinnar eða óháðir einstaklingar og álitsgjafar. Þeir fá auðvitað meira klapp á bakið, velji þeir fyrrnefnda hlutverkið, en þeim líður betur til langs tíma litið og misstíga sig síður, velji þeir hið síðara.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook