5.5.2010 | 14:54
Skattalækkanirnar voru skynsamlegar
Steingrímur J. Sigfússon hefur farið mikinn gegn skattalækkunum fyrrverandi ríkisstjórnar. Þeir lækkuðu skattana í þenslunni, æpir hann með hneykslunarsvip. Á bak við það er líklega sú kenning um hagstjórn, að hækka eigi skatta í þenslu til að draga úr henni og lækka þá í samdrætti til að vinna á móti honum.
Af hverju lækkar Steingrímur J. þá ekki skatta frekar en hækkar?
Ég er hins vegar annarrar skoðunar um skattalækkanir síðustu ríkisstjórnar (og þá ég við þá, sem sat nær óslitið undir forystu Sjálfstæðisflokksins frá 1991). Þær voru ekki aðgerðir í hagstjórn, heldur tilraun til að skila almenningi hluta af sjálfsaflafé hans, sem haft hafði verið af honum ranglega.
Ríkið tók of mikið af einstaklingunum fyrir 1991. Þess vegna voru skattalækkanirnar nauðsynlegar.
En þær voru líka skynsamlegar af ýmsum ástæðum. Ein ástæðan er sú, sem ég skýri nánar í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, að skattstofninn stækkar við skattalækkanir, og vinnur það á móti tekjumissi ríkisins af slíkum skattalækkunum. Skattstofninn stækkar aðallega af tveimur ástæðum. Skattskil verða betri, menn svíkja síður undan skatti, og framboð þeirrar vöru eða þjónustu, sem skattar lækka á, eykst.
Eitt dæmið, sem ég tek í bók minni, er af húsaleigu. Framboð leiguhúsnæðis jókst stórlega, þegar skattur lækkaði á húsaleigutekjum (úr hinu sama og á launatekjum í hið sama og af fjármagnstekjum). Jafnframt bötnuðu skattskil. Eftir nokkur ár voru tekjur ríkisins af húsaleigutekjum einstaklinga orðnar jafnmiklar og þær höfðu áður verið, þótt skatturinn af þeim hefði farið úr um 47% niður í 10%.
Mikilvægasta dæmið er þó vinnuafl. Eins og Edward Prescott, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur sýnt fram á, eykst framboð vinnuafls við skattalækkanir og minnkar að sama skapi við skattahækkanir. Á venjulegu mannamáli merkir þetta: Menn vinna meira, ef þeir fá sjálfir að njóta þess. Þeir vinna minna, ef ríkið nýtur þess aðallega í stað þeirra sjálfra.
Skattalækkanir hafa því þau langtímaáhrif, að menn gera meira, skapa meira, vinna meira, og það er æskilegt, vegna þess að við það stækkar þjóðarauðurinn og tækifærum fjölgar. Þeir, sem ekki vilja vinna, þurfa auðvitað ekki að kvarta, því að þeirra hlutur rýrnar ekki. Hinir, sem vilja vinna, fá að gera það, og það er alls staðar æskilegt.
Skattalækkanirnar 19912007 voru þess vegna tímabærar. Skattalækkanir verða tímabærar, uns ríkið hefur smækkað niður í það, sem það er til dæmis í Sviss (um 30% af landsframleiðslu).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook