5.5.2010 | 13:28
Fróðlegt í skýrslunni
Margt er fróðlegt í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er leitt í ljós, svo að ekki verður um villst, að fámennur hópur ævintýramanna náðu tökum á íslensku bönkunum um og eftir 2004 og soguðu þaðan út fé í misjafnlega skynsamlegar fjárfestingar. Þessi hópur var undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi. Hann var höfuðpaurinn.
Skýrsluhöfundar lögðust hins vegar í undarlega smásjárskoðun á embættisfærslum Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra, enda dundu á þeim áskoranir leynt og ljóst um að finna eitthvað misjafnt um hann.
Önnur athugasemd þeirra við athafnir Davíðs og félaga hans í Seðlabankanum er beinlínis röng. Þeir telja, að Seðlabankinn hefði átt að stöðva Landsbankann, þegar hann færði út kvíarnar með stofnun Icesave-reikninganna. Seðlabankinn hafði enga lagaheimild til þess, eins og er rækilega útskýrt í svari Davíðs Oddssonar, sem aðgengilegt er á Netinu (en er af einhverjum ástæðum ekki prentað með sjálfri skýrslu Rannsóknarnefndarinnar).
Hin athugasemd þeirra er svo smávægileg, að ekki var orð á gerandi. Hún er, að ekki hafi verið fyllt út rétt eyðublöð, þegar ríkið gerði með milligöngu Seðlabankans kauptilboð í flest hlutabréf Glitnis í upphafi bankahrunsins. Á sama tíma voru fjármálaráðherra og seðlabankastjóri Bandaríkjanna að ausa fé í bankana þar vestra. Þá skipti máli að taka ákvarðanir hratt og örugglega. Halda einhverjir, að þar hafi verið aðalatriðið, hvaða eyðublöð voru fyllt út?
Ég fylgdist vel með athöfnum og embættisfærslu Davíðs Oddssonar næstu tvö ár á undan hruninu, enda sat ég þá í bankaráði Seðlabankans. Það var beinlínis sorglegt að sjá, hvernig menn daufheyrðust við endurteknum viðvörunum hans, sem hann hafði þó ekkert vald til að fylgja eftir, enda hafði Fjármálaeftirlitið verið fært undan Seðlabankanum. Rannsóknarnefndin hefði verið sanngjarnari, ef hún hefði metið það við Davíð, að hann var eini maðurinn í trúnaðarstöðu, sem varaði við, í stað þess að leggjast í smásjárskoðun á embættisfærslum hans.
En fróðlegt er að sjá, hvað skýrsluhöfundar gera ekki athugasemdir við. Í heilt ár hafa spunameistarar Samfylkingarinnar sagt, að frægt Kastljóssviðtal við Davíð hafi sett hrunið af stað og spillt fyrir málstað Íslendinga í Bretlandi. Nefndin tekur ekki undir þá skýringu.
Jafnframt hafa tveir ungir og hrokafullir hagfræðingar, þeir Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson, haldið því fram í síbylju, að Davíð hafi gert Seðlabankann gjaldþrota með gáleysislegum útlánum til viðskiptabankanna (þótt Jón Steinsson hefði raunar beðið um það opinberlega fyrir hrun, að Seðlabankinn slakaði á veðhæfiskröfum!). Nefndin tekur ekki undir þá kenningu.
Stundum er þögnin fróðleg.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook