Lætur Jón Ásgeir blað frekar í friði en banka?

jon_sgeir_984399.jpgÍ nýútkominni skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er skýrt dæmi um, hvernig Jón Ásgeir Jóhannesson beitti áhrifum sínum sem eigandi á rekstur og útlán Glitnis. Birt eru tölvuskeyti milli hans og starfsmanns Glitnis, þegar bankinn ætlaði með bréfi að treysta tök sín á einu fyrirtæki Jóns Ásgeirs, Landic Property, í því skyni að tryggja endurgreiðslu láns bankans til fyrirtækisins.

Jón svaraði tilkynningu um fyrirhugað bréf í tölvuskeyti sínu til starfsmanns Glitnis: „Sem aðaleigandi Stoða sem er stæsti [svo] hluthafi í Glitni langar mig að vita hvernig svona bréf á að þjóna hagsmunum bankans.“

Áður hafði skilanefnd og slitastjórn Glitnis birt sambærileg tölvuskeyti frá Jóni Ásgeiri, sem erfitt var að skilja öðru vísi en sem kröfur um lán og hótanir, yrði ekki orðið við þeim kröfum. Jón Ásgeir hefur að vísu sagt, að „broskall“ hafi fylgt þeim skeytum, hvort sem það breytir einhverju eða ekki.

Einnig kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar, að útlán Glitnis til fyrirtækja í eigu Jóns Ásgeirs og viðskiptafélaga hans stórjukust, eftir að þeir náðu langþráðum yfirráðum sínum yfir bankanum árið 2007. Var áreiðanlega gengið á svig við lög með því að telja ýmsa aðila óskylda, sem voru það svo sannarlega ekki, til dæmis fyrirtæki í eigu Jóns Ásgeirs annars vegar og eiginkonu hans hins vegar.

Rannsóknarnefndin er að vísu ekki dómstóll, og allir teljast saklausir, uns sekt þeirra hefur verið sönnuð. En óhætt er að fullyrða í ljósi þessara gagna, að Jón Ásgeir hafi misbeitt áhrifum sínum sem aðaleigandi í Glitni árin 2007–2009.

En ef Jón Ásgeir hefur orðið uppvís að því að misbeita eigandavaldi sínu á banka, er þá ekki líklegt, að hann misbeiti því líka á blað? Jón Ásgeir „á“ enn talsvert fjölmiðlaveldi með óskiljanlegri aðstoð íslensku bankanna, sem hann virðist hafa tæmt, ef marka má skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Er ekki eitthvað athugavert við þetta?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband