Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis

bilde_980755.jpgMargt kemur fróðlegt fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, sérstaklega um innviði bankanna og atburðarásina árið 2008. Ég hafði ekki sjálfur gert mér grein fyrir því, hvílík heljartök Jón Ásgeir Jóhannesson og hópurinn í kringum hann höfðu á íslensku bönkunum. Ef þeir féllu, þá féllu allir með þeim, eins og fram kemur í skýrslunni. Einni spurningu er þó ósvarað um það í mínum huga: Hvernig gátu þeir Jón Ásgeir náð þessum heljartökum? Eins og Davíð Oddsson spurði á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs skömmu eftir hrun: Hvernig gat einn maður safnað þúsund milljarða skuld í íslensku bönkunum? (Og hvernig stendur á því, að sami maður skuli enn ráða yfir miklu fjölmiðlaveldi í skjóli þess, sem eftir er af íslensku bönkunum?)

Gera verður því betur skil síðar meir, hvernig Bretar komu fram við Íslendinga í þessu máli, þótt raunar sé bent á það í skýrslunni, að Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, sagði beinlínis ósatt opinberlega um samtal sitt við Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra í upphafi hruns, auk þess sem Rannsóknarnefndin segir, að Bretar hefðu ekki þurft að ná markmiðum sínum með því að beita hryðjuverkalögum sínum, en á þann hátt veittu þeir íslenska bankakerfinu áreiðanlega banahöggið.

Það mat nefndarinnar, að árið 2008 hafi verið svo komið, að ekki hafi verið unnt að bjarga íslenska bankakerfinu, er bæði rétt og rangt. Það var rétt, ef hvergi var neinn stuðning að fá, neinar baktryggingar, til dæmis frá löndum Evrópska efnahagssvæðisins. Þá var íslenska bankakerfið dæmt til að falla. En það var rangt í þeim skilningi, að í sjálfu sér er það litlum takmörkunum háð, hversu stórir bankar geta verið á einhverju einu afmörkuðu svæði. Setjum til dæmis svo, að allir bresku bankarnir hefðu aðsetur í Coventry, þar sem íbúafjöldi er svipaður og á Íslandi. Auðvitað gæti Coventry eitt ekki staðið undir slíku bankakerfi, en Bretland gæti það væntanlega.

Samviskusamlega er rakið í skýrslunni, hvernig Davíð Oddsson varaði ráðherra ríkisstjórnarinnar hvað eftir annað við hættunni af útþenslu bankanna. Ég sé ekki betur en hann hafi verið eini íslenski ráðamaðurinn, sem það gerði. Meðal annars sat hann fund með Geir H. Haarde forsætisráðherra, Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra 7. febrúar 2008, þar sem hann brýndi fyrir ráðherrunum, hvílík vá gæti verið fyrir dyrum, sérstaklega vegna þess að bankarnir nytu ekki trausts erlendis. Ingibjörg Sólrún færði á minnisblað sitt, að hann hefði farið mikinn. En hún gerði ekkert.

Mér finnst einkennilegt, að Rannsóknarnefndin skuli ekki taka meira tillit til þess, hver varaði við. Þess í stað hefur hún lagst í smásjárskoðun á því, hvað finna mætti að embættisfærslu Seðlabankans. Og þar tóku fjöllin svo sannarlega jóðsótt og fæddist mús. Hún telur í fyrsta lagi, að seðlabankastjórarnir hafi gert sig seka um vanrækslu með því að hemja ekki starfsemi Landsbankans erlendis vorið 2008. Ég er sannfærður um það, að þessi athugasemd stenst ekki. Seðlabankinn hafði engar valdheimildir til þess að stöðva rekstur bankans. Seðlabankinn var ekki aðeins bundinn af verkaskiptingu milli sín og Fjármálaeftirlitsins, heldur líka af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en samkvæmt honum var íslenskum viðskiptabönkum frjálst að starfa hvar sem er í löndum svæðisins.

Seinni athugasemdin er, að Seðlabankinn hefði ekki gætt fyllstu og nákvæmustu stjórnsýslureglna, meðal annars með skriflegum tilkynningum og samráði við sérfræðinga, þegar ríkið gerði að tillögu hans kauptilboð í flest hlutabréf Glitnis. Hér er á ferðinni eftiráspeki skriffinna. Þetta er hugsanlega rétt, en skiptir litlu sem engu máli í allri framvindunni. Er ekki aðalatriðið, hverjir sáu þrátt fyrir allt hættuna og vöruðu við? Þá kemur að furðulegu atriði í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar. Hún talar eins og það hafi verið sök Davíðs Oddssonar, að ekki skyldi hafa verið hlustað á hann, þar sem hann hefði áður verið stjórnmálamaður! Var það ekki frekar sök þeirra, sem ekki hlustuðu, af því að þeir höfðu hugann við fornar væringar, en ekki heill Íslands?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband