9.4.2010 | 23:13
Að loknum Njálulestri
Ég var að lesa aftur Njálu eða Brennu-Njáls sögu, eins og höfundurinn kaus sjálfur að kalla hana. Árni Pálsson prófessor sagðist þurfa að lesa Njálu árlega til að halda við íslenskunni.
Ég er ekki eins iðinn við Njálulestur og Árni Pálsson. En fróðlegt er að lesa slíka bók í þriðja eða fjórða skipti, eins og ég gerði. Á henni birtast sífellt nýir fletir. Til dæmis fór fram hjá mér, sakleysingjanum, þegar ég las Njálu í menntaskóla, hversu lostug sagan er. Hún er barmafull af ástríðum og kynlífi. Raunar er hún furðuberorð. En íslenskukennarar þeirrar tíðar kusu að líta fram hjá því. Þeir ræddu því meira um hetjuhugsjónina og hina blendnu einstaklinga, sem Njáluhöfundur lýsir.
Ég hef áður sagt frá því opinberlega, að mér finnst blasa við, hvers vegna Gunnar Hámundarson sneri aftur. Auðvitað var það ekki af ættjarðarást, sem ekki varð til fyrr en á nítjándu öld. Hann leit aftur, í átt að Hlíðarenda, og sú hugsun varð honum skyndilega óbærileg, að Hallgerður Langbrók, kona hans, sem hann unni áreiðanlega heitt, skyldi skilin eftir. Hún yrði honum ótrú í útlegðinni.
Við endurlestur bókarinnar varð mér hins vegar ljóst, að sennilega væri Njáluhöfundur ekki sami kvenhatarinn og margir hafa haldið fram, þar á meðal mínir ágætu íslenskukennarar í menntaskóla. Vissulega eggjuðu konur sögunnar menn sína til stórræða, Hallgerður, Bergþóra, Hildigunnur. En voru þær ekki að gegna hinu eðlilega hlutverki sínu, sem var að standa vörð um fjölskylduna, vernda hana? Til þess þurftu karlarnar að rækja hefndarskyldu sína, þótt þeim væri það ef til vill ekki alltaf ljúft.
Mér sýnist, að hlutverkum hafi á því skeiði, sem Njála tekur til, á öndverðri þjóðveldisöld, verið skipt svo á milli kynjanna, að karlarnir fengust við að leita að þeim lögum, þeirri gagnkvæmu aðlögun, þeim málamiðlunum, sem nauðsynlegar voru, til þess að menn gæti lifað saman í sæmilegri sátt. Konurnar sinntu hins vegar því að gæta hreiðursins og heiðursins. Þröngsýni þeirra var jafnnauðsynleg og víðsýni karlanna.
Fjölbreytileg og flókin saga eins og Njála hefur margvíslegar skírskotanir. Hún er ekki eintóna, heldur margradda. Sumir geta lesið úr henni ástarsögu, aðrir viðleitni við að mynda ein lög og einn frið, enn aðrir hetjusögu, söguna um Gunnar Hámundarson, Kára Sölmundarson, jafnvel Brennu-Flosa.
Hrafn Gunnlaugsson hefur í mín eyru reifað tvær kenningar um söguna, sem ég er tortrygginn á. Önnur er, að þeir Gunnar og Njáll hafi átt í ástarsambandi. Ég held miklu frekar, að samband þeirra hafi verið hið sígilda samband tveggja karla, sem bættu hvor annan upp og urðu þess vegna góðir vinir. Gunnar hafði það, sem Njál vantaði, og öfugt. Hin kenningin er, að Kári Sölmundarson hafi verið í einhvers konar vitorði með Flosa Þórðarsyni á Svínafelli og þess vegna sloppið úr brennunni. Ég kem ekki auga á sterk rök fyrir þeirri kenningu. Hún er langsótt, þótt hún sé frumleg.
Einn þáttur sögunnar vísar beint til nútímans: Förukerlingarnar, sem báru illmæli á milli Hlíðarenda og Bergþórshvols. Hliðstæða þeirra um þessar mundir er Hreinn Loftsson, sem bar óheppileg orð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar (hugleiðingar um 300 milljón króna mútur) til Davíðs Oddssonar og hefur eflaust líka borið einhver orð Davíðs (án þess að ég viti það) til Jóns Ásgeirs (og líklega mjög úr lagi færð). Úr því blossaði upp eldur, sem sennilega var hjákvæmilegur, en ekki verður slökktur úr þessu, þótt á hitt sé að líta, að enginn týndi lífi í honum eins og í Njálsbrennu forðum.
En furðu sætir, að þeir Otkell og Skammkell skuli enn reka fyrirtæki og eiga fjölmiðla.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:15 | Facebook