8.4.2010 | 22:49
Starfshópur rannsóknarnefndarinnar
Samkvæmt lögum um rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu skyldi starfa með henni sérstakur hópur, og var honum falið að meta, hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði. Í þessum starfshópi, sem valinn var af forsætisnefnd Alþingis, sitja dr. Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki í Háskóla Íslands, Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Kristín Ástgeirsdóttir, forstöðumaður jafnréttisstofu og fyrrverandi alþingismaður.
Allt eru þetta valinkunnir sómamenn, sem ég þekki að góðu einu. Vilhjálmur var skólabróðir minn í heimspeki, sem við námum undir handleiðslu eftirminnilegra kennara eins og Þorsteins Gylfasonar og Páls Skúlasonar. Kristín var skólasystir mín í sagnfræði, þar sem Þórhallur Vilmundarson, Ólafur Hansson og fleiri fróðir menn og skemmtilegir kenndu okkur. Bæði eru sanngjörn og reiðubúin til að hlusta á rök og sjónarmið annarra. Leiðir okkar Salvarar hafa síður legið saman, en hún er viðræðugóð og virðist vera skynsöm og öfgalaus, eins og hún á kyn til.
Það er hins vegar gömul og ný reynsla, að menn geta verið góðir hver í sínu lagi, en vondir saman í einum hópi.
Ég vissi fyrir, að Vilhjálmur og Kristín væru yfirlýstir vinstri menn. Þau hafa hvergi reynt að leyna því.
Vilhjálmur var einn af forvígismönnum Félags frjálslynda jafnaðarmanna, sem til var á miðjum tíunda áratug, þótt ekki yrði það langlíft. Hann flutti erindi um heimspeki félagshyggjunnar á stofnfundi Samfylkingarinnar 1999 og hefur mjög gagnrýna afstöðu til frjálshyggju.
Kristín var auðvitað þingmaður Kvennalistans og starfar nú undir beinni stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, því að jafnréttisstofa hefur verið færð í forsætisráðuneytið. Hún hefur ekki síður gagnrýna afstöðu til frjálshyggju (eins og allur Kvennalistinn hafði).
Ég vissi hins vegar ekki, að þriðji maðurinn í starfshópnum, Salvör Nordal, hefði líka mjög gagnrýna afstöðu til frjálshyggju. En nú les ég á Smugunni, að hún sé einn af höfundum væntanlegs barátturits gegn frjálshyggju, sem nefnist Eilífðarvélin. Uppgjör við nýfrjálshyggjuna. Í viðtali á Smugunni rangfærir ritstjóri bókarinnar orð mín, eins og ég hef þegar bent á hér á bloggi mínu.
Lengi verður um það deilt, hvað olli íslenska bankahruninu. En í umræðum heimspekinga um það hlýtur frjálshyggja að koma mjög við sögu. Ég er satt að segja hissa á þeim Vilhjálmi, Kristínu og Salvöru að taka að sér þetta verkefni ein og óstudd. Í stað þess, að þau bergmáluðu hvert annað í andstöðu við frjálshyggju, hefðu fleiri raddir mátt heyrast, til dæmis ágætra og rökfastra heimspekinga, sem eru að minnsta kosti ekki yfirlýstir andstæðingar frjálshyggju, svo að ég viti. Nefni ég þar sérstaklega dr. Erlend Jónsson, prófessor í heimspeki, dr. Guðmund Heiðar Frímannsson heimspeking, dr. Kristján Kristjánsson heimspeking (sem sennilega hefur hlotið mest brautargengi íslenskra heimspekinga á alþjóðavettvangi) og Atla Harðarson heimspekikennara.
Ég efast ekki um, að þau Vilhjálmur, Kristín og Salvör munu leggja sig fram að vera sanngjörn í mati sínu á siðferðilegum þáttum hrunsins. En ráða þessir yfirlýstu andstæðingar frjálshyggju við sjálfa sig? Og standa þau af sér vini og kunningja, sem munu eflaust sumir leggja fast að þeim að fordæma í skýrslu sinni frjálshyggju og kenna henni um bankahrunið, eins og ritstjóri bókarinnar, sem Salvör skrifar í, gerir einmitt?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook