Orð mín rangfærð

Upplýst er á Smugunni, að von sé á bók gegn „nýfrjálshyggju“, en það heiti nota andstæðingar frjálshyggju um hana, — um stjórnmálakenningu Lockes og Smiths, Mills, Hayeks, Nozicks og Friedmans. Bókin eigi að bera nafnið Eilífðarvélin, en ritstjóri hennar sé Kolbeinn Stefánsson (sonur Stefáns félagsfræðings Ólafssonar). Á Smugunni segir:

„Kapítalisminn brást ekki heldur kapítalistarnir.“ Þessi málsvörn Hannesar Hólmsteins og annarra spámanna nýfrjálshyggjunnar þótti Kolbeini Stefánssyni furðuleg. „Öll svona kerfi byggja á ákveðnum hugmyndum um hvernig fólk hegðar sér. Ef að fólk hegðar sér ekki eins og kerfið gerir ráð fyrir þá er það kerfið sem bregst, þótt það séu einstaklingarnir sem bera ábyrgð á því. Vandamálið við þessa stefnu er að hún byggir á mjög sérkennilegum hugmyndum um mannlegt atferli og eðli. Ekki að við séum ekki stundum gráðug og stundum sjálfselsk, en hugmyndafræðin gerir ráð fyrir því að það séu allir alltaf gráðugir og sjálfselskir. Kerfi sem byggir á svona óraunsærri sýn á mannlegt eðli er dæmt til að mistakast.“

Kolbeinn vísar hér eflaust í viðtal við mig, sem birtist í Morgunblaðinu 4. október 2008, skömmu eftir bankahrunið. En þar segi ég allt annað. Blaðamaður spyr mig, hvort kapítalistarnir hafi brugðist. Ég svara:

Ég held að það sé ekki beinlínis hægt að kenna þeim öllum um. Þeir eru mistækir eins og gengur. En kapítalisminn snýst ekki um kapítalistana, heldur árangur sjálfs kerfisins. Margir eru núna með réttu að hneykslast á græðginni. Sumir kapítalistar hafa vissulega sýnt græðgi. En græðgi er þáttur í mannlegu eðli sem við getum ekki breytt með predikunum heldur eigum við miklu heldur að tryggja að græðgin verði öðrum til góðs og það gerir hún við frjálsa samkeppni þar sem menn þurfa að leggja sig fram um að fullnægja þörfum annarra betur og ódýrar en keppinautar þeirra. Græðgin er ekkert að hverfa. Aðalatriðið er að nýta kapítalistana til góðs. Við þurfum að átta okkur á því að frjáls samkeppni er eins konar sía sem skilur að þá sem geta og hina sem geta ekki. Sumir gera mistök og þeir hætta rekstri. Aðrir gera ekki mistök og þeir halda áfram rekstri. Þetta er lögmál kapítalismans og þegar á bjátar kemur þetta lögmál býsna vel í ljós vegna þess að skiptaráðandinn er lokaúrræði kapítalismans, ekki böðullinn, sem betur fer. Í kapítalisma fara menn á hausinn, en láta ekki hausinn, eins og í miðstýrðu hagkerfi. Gjaldþrot er auðvitað alltaf sorglegt og aldrei æskilegt. En það er í vissum skilningi nauðsynlegt til þess að leiðrétta mistök. Það er enginn vafi á því að margir íslenskir kapítalistar hafa farið of geyst en ég held samt að undirstöður íslenska hagkerfisins séu traustar. Útflutningsatvinnuvegirnir blómstra. Ál og fiskur eru í góðu verði. Það er engin ástæða til að örvænta. Eins og segir í Biblíunni: Með von, gegn von.

Kolbeinn rangfærir orð mín. Ekki er von á góðu, ef kynna þarf bók með slíkum rangfærslum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband