24.3.2010 | 17:17
Skattamál eru skemmtileg!
Ég hafði mikla ánægju af þeirri rannsókn á sköttum og velferð, sem ég sá um fyrir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands 20072009, og lærði sjálfur margt af henni, en segja má, að nýútkomin bók mín, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og velferð, sé lokahnykkur hennar.
Ég sannfærðist um það í þessari rannsókn, að skattar skipta mjög miklu máli um hagsæld einstakra þjóða. Tökum til dæmis þá staðreynd, að skatttekjur hins opinbera á mann eru svipaðar í Svíþjóð og Sviss, um og yfir eitt þúsund Bandaríkjadalir, en skattheimtan er nær tvisvar sinnum meiri í Svíþjóð, nær 60%, en í Sviss, rösk 30%. Þetta er eitt besta dæmið, sem ég kann um svokölluð Laffer-áhrif: Skattstofnar eru breytilegir. Þeir stækka, þegar skattar lækka, og það vinnur á móti hugsanlegu tekjutapi ríkisins af skattalækkunum. Ef skattar eru lágir, þá vinna menn til dæmis meira, því að þá njóta þeir sjálfir afraksturs viðbótarvinnu sinnar.
Að sama skapi minnka skattstofnar, þegar skattar hækka, og það vinnur á móti hugsanlegum tekjuauka ríkisins af skattahækkunum. (Þetta á núverandi ríkisstjórn á Íslandi eftir að reka sig á.)
Í bók minni fer ég yfir ýmis íslensk dæmi um Laffer-áhrifin. Tvö eru skýrust. Annað er af leigutekjum. Þær voru skattlagðar eins og atvinnutekjur fyrir 1997. Má gera ráð fyrir, að skattur af þeim hafi verið um 47% (þar sem sennilega greiddu þeir, sem leigðu út húsnæði, ekki aðeins venjulegan tekjuskatt, heldur líka hátekjuskatt af þessum viðbótartekjum sínum). Skatturinn lækkaði niður í 10%, þegar upp var tekinn fjármagnstekjuskattur.
En skatttekjur ríkisins lækkuðu ekki að sama skapi, því að framboð leiguhúsnæðis stórjókst við það, að skattur af leigutekjum lækkaði, auk þess sem skattskil bötnuðu. Ég reiknaði út í bók minni, að sennilega voru skatttekjur ríkisins af leigutekjum einstaklinga orðnar hinar sömu að raungildi 2004 og þær höfðu verið 1991.
Lítil sneið af stórri köku getur verið jafnstór og stór sneið af lítilli köku. 10% skattur árið 2004 skilaði ríkinu sömu tekjum og 4050% skattur gerði árið 1991.
Hitt íslenska dæmið er af skattlausa árinu 1987. Menn greiddu ekki skatta af vinnu sinni það ár. Afleiðingin var, að þeir unnu talsvert meira, eins og dr. Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor og fleiri hafa sýnt fram á (sérstaklega þeir, sem gátu aukið við sig vinnu til skamms tíma, til dæmis konur og ungt fólk). Framboð vinnu jókst.
Ég skoða sérstaklega í bók minni það sjónarmið, hvort auknar skatttekjur ríkisins þrátt fyrir skattalækkanir hafi stafað af lánsfjárbólunni, sem sprakk svo eftirminnilega haustið 2008. Svarið er neitandi til 2004. Til þess tíma áttu hinar auknu tekjur sér eðlilegar ástæður. Þetta sést meðal annars með því að skoða, hvenær lánsfjárbólan verður: Það er um og eftir 2004. Í bók minni er línurit, þar sem þetta sést mjög vel.
Hið síðastnefnda rímar við það, sem ég og margir aðrir hafa sagt: Hæfilegt jafnvægi raskaðist í þjóðlífinu íslenska um og eftir 2004. Skuldakóngar með fjölmiðlaveldi á bak við sig tóku völdin. Kapítalistarnir unnu gegn kapítalismanum. (Goethe yrkir um þetta fyrirbæri í frægu kvæði, Der Zauberlehrling eða Lærisveinn galdrameistarans, og margir muna úr æsku sinni eftir atriðinu í Fantasíu Walts Disneys, þar sem Mikki mús gegnir hlutverki lærisveinsins.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook