Lækkuðu skattar eða hækkuðu 1991–2004?

stefanolmynd_403847_973517.jpgFurðulegt er, þegar menn þurfa að þræta um það, hvort himinninn sé blár eða rauður, þegar allir sjá, að hann er blár. En ég þurfti misserum saman að kýta við Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, um það, hvort ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hefðu hækkað skatta, þótt þær hefðu keppst við að lækka skatta (til dæmis tekjuskatt á einstaklinga úr um 42% í um 36%, þegar útsvar er tekið með, tekjuskatt á fyrirtæki úr 45% í 18% og svo framvegis).

Hvernig gat Stefán fullyrt, eins og hann gerði, að Davíð væri einhver mesti skattakóngur sögunnar? Ég skýri talnabrellur Stefáns rækilega í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, en hér skal ég rekja málið stuttlega.

Þrennt gerðist.

Skattstofnar stækkuðu í fyrsta lagi, vegna þess að menn töldu betur fram en áður sökum lægri skatta og juku einnig framboð á vinnu sinni og öðrum gæðum. Skýrasta dæmið voru leigutekjur. Skattur af þeim lækkaði úr um 47% (sem var tekjuskattur af atvinnutekjum auk hátekjuskatts, sem ætla má, að flestir, sem leigðu út frá sér, hafi greitt af slíkum viðbótartekjum) í 10% (sem var hinn nýi fjármagnstekjuskattur). En framboð jókst fyrir vikið á leiguhúsnæði, og menn töldu betur fram en áður, svo að skatttekjur ríkisins urðu eftir nokkur ár hinar sömu af 10% og þær höfðu verið af 47%. (Þetta er gott dæmi um Laffer-áhrifin svonefndu í skattlagningu.)

Í öðru lagi breikkuðu sumir skattstofnar sökum breyttra reglna, eins og Stefán klifaði á og gerði að aðalatriði. Til dæmis hækkuðu skattleysismörk ekki alveg með verðlagi, svo að menn greiddu hærra hlutfall af tekjum sínum í skatta en áður. Ég bendi hins vegar á í bók minni, að Stefán reiknaði þetta rangt, því að hann tók ekki tillit til skattfrelsis lífeyrissparnaðar, sem vann á móti hinni raunverulegu lækkun skattleysismarka. Enn fremur sýni ég þar fram á, að tekjuauki ríkisins vegna lækkunar skattleysismarka var örlítill hluti af tekjuauka ríkisins í heild. Sú „skattahækkun“, sem stafaði af þessu, var óveruleg.

Í þriðja lagi olli góðærið því, að tap fyrirtækja snerist í gróða, svo að þau greiddu skatta, sem þau höfðu sum ekki áður gert; menn, sem áður höfðu haft tekjur undir skattleysismörkum, fóru upp fyrir þau (sem betur fer) og tóku að greiða skatta; ríkið gat sparað sér vaxtabætur og ýmsar tekjutengdar bætur, sem skruppu saman vegna bættrar afkomu launafólks; tekjur ríkisins af vörugjöldum hækkuðu vegna þess, að meira var keypt af vöru til landsins; og svo framvegis.

Þetta má orða svo, að inni í skattkerfi okkar er til sjálfvirk sveiflujöfnun: Meira (hærra hlutfall) af tekjum okkar og útgjöldum er skattlagt í góðæri, minna í kreppu. Þetta er æskilegt og eðlilegt.

Afleiðingin af þessu öllu var, að skatttekjur ríkisins stórjukust í góðærinu 1996–2004, ekki aðeins í krónum, heldur líka sem hlutfall af landsframleiðslu.

En takið eftir, að stjórnvöld réðu í rauninni ekki nema óbeint neinu um fyrstu og þriðju ástæðuna til hærra skatttekna. Tekjuaukinn þá var miklu frekar afleiðing af kerfisbreytingum og almennum aðstæðum. Hin mikla firra margra félagshyggjumanna er að halda, að stjórnvöld geti skammtað sér tekjur. Það geta þær ekki nema að litlu leyti. Þau ráða í rauninni furðulitlu um skatttekjur. Þær tekjur stjórnast frekar af almennum lögmálum.

Ég bendi hins vegar í bók minni á, að stjórnvöld geta ráðið meiru um útgjöldin. Þau jukust ekki í tíð Davíðs Oddssonar, þótt auðvitað hefði ég viljað eins og aðrir frjálslyndir menn, að þau hefðu minnkað enn meira en raun varð á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband