17.3.2010 | 09:03
Málstofa um vald
Dagana 11.14. mars sótti ég fimmtán manna málstofu í San Diego í Kaliforníu um valdshugmyndina í verkum Actons lávarðar. Hann var bresk-þýskur sagnfræðingur á nítjándu öld, kaþólskur, en frjálslyndur í stjórnmálaskoðunum og einhver lærðasti maður sinnar tíðar. Hann skrifaði hin frægu orð (í bréfi til annars sagnfræðings): Allt vald hefur tilhneigingu til að spilla, og gerræðisvald gerspillir. Þreyttist hann aldrei á að brýna fyrir starfssystkinum sínum, að valdið helgaði ekki ódæðisverk.
Eitt dæmi, sem ég rakst á í ritum Actons, var af Lúðvík XIV. Hann var stríðsgjarn konungur og hafði hátt í 500 þúsund manns undir vopnum, fleiri en Napóleon, en allt að sex milljónir manna eru taldar hafa fallið úr hungri í valdatíð hans. Ég vissi ekki um þennan svarta blett á sólkónginum úr þeim sögubókum, sem ég var látinn lesa í menntaskóla og háskóla. Þar var hins vegar farið mörgum orðum um höll hans í Versölum.Í framlagi mínu til málstofunnar benti ég á, að eitt hlutverk sagnfræðinga ætti að vera í anda Actons lávarðar að gera hina ósýnilegu menn sýnilega, þá, sem undirokaðir hefðu verið og þaggað niður í. Ég lýsti í því sambandi yfir furðu minni á því, að kommúnisminn væri ekki enn talinn glæpsamlegur í sama skilningi og fasisminn. Fórnarlömb kommúnismans á tuttugustu öld voru fimm sinnum fleiri en fasismans, að því er talið er, og mörg voru þau valin vegna þess, hver þau voru, ekki vegna þess hvað þau höfðu gert.
Sagnfræðingur eða heimspekingur, sem legði kommúnisma og fasisma að jöfnu í siðferðilegum skilningi í ritgerð, ætti áreiðanlega enn erfitt með að fá hana birta í fræðilegu tímariti, hvers vel sem hún væri studd gögnum og rökum.
Ég minnti einnig á margvíslega stjórnmálaglæpi, sem farið hafa furðuhljótt. Hver man eftir Armenum? á Hitler að hafa sagt, þegar einhver spurði hann, hvort sagan myndi dæma hann hart vegna þess, hversu illa hann lék Gyðinga. Hver minnist á þær milljónir manna, sem nauðugar voru afhentar Kremlverjum að kröfu þeirra eftir seinni heimsstyrjöld, en höfðu flúið vestur á bóginn í stríðinu og jafnvel fyrir það (til dæmis margir ríkisborgarar Eystrasaltslandanna þriggja)? Hver minnist á það, að hátt í tíu milljónir manna af þýskum ættum voru reknar út úr Tékkóslóvakíu og Póllandi og nærliggjandi svæðum eftir seinni heimsstyrjöld? Þar á meðal voru þrjár milljónir manna, sem búið höfðu í Súdetahéruðunum og voru tékkóslóvakískir ríkisborgarar. Hver minnist á það, að bandarískir ríkisborgarar af japönskum ættum voru umsvifalaust settir í fangabúðir, eftir að Bandaríkjamenn hófu undir forystu Franklins D. Roosevelts þátttöku í stríðinu?
Margt bar á góma á málstofunni, og ég hafði tækifæri til að endurnýja gömul kynni af heimspekingum eins og Douglas Rasmussen og Tibor Machan. Einnig var skemmtilegt, að málstofuna sat hagfræðingurinn Bettina Bien Greaves, 93 ára að aldri, en hún hafði verið nemandi hins kunna austurríska hagfræðings Ludwigs von Mises. Hafði hún setið hverja einustu málstofu hans í New York-háskóla í átján ár og var nú á tíræðisaldri að búa glósur sínar frá þeim undir prentun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:05 | Facebook