Kosningasprengja Stefáns 2007

stefanolmynd_403847_970722.jpgÍ bloggi mínu í gær lýsti ég kosningasprengju þeirri, sem Stefán Ólafsson varpaði fram fyrir Samfylkinguna vorið 2003, skömmu fyrir þingkosningar. Þá átti fátækt að vera meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Sú sprengja sprakk framan í Samfylkinguna, en ég fer í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, yfir gögn um málið, meðal annars frá hagstofu Evrópusambandsins.

En þrátt fyrir slakan árangur í kosningabaráttunni hélt Stefán ótrauður áfram, eins og ég rek í bók minni. Hann hóf tíð greinaskrif sumarið og haustið 2006 til undirbúnings þingkosningunum vorið 2007. Þar hélt hann því fram, að tekjuskipting á Íslandi hefði orðið miklu ójafnari árin 1995–2004 (sem gögn voru til um) en annars staðar á Norðurlöndum.

(Menn geta velt því sérstaklega fyrir sér, hvers vegna Stefán valdi árið 1995 sem upphaf.)

Birti Stefán meðal annars í Morgunblaðinu 31. ágúst 2006 línurit um svokallaða Gini-stuðla, sem notaðir eru til að mæla ójafna tekjuskiptingu (sem Stefán kýs að kalla hinu gildishlaðna orði ójöfnuð). Samkvæmt línuritinu hafði tekjuskiptingin á Íslandi 1995 verið svipuð og á Norðurlöndum, en var orðin miklu ójafnari 2004 og þá jafnvel ójafnari en í Bretlandi.

Hófust nú miklar umræður, sem Ríkisútvarpið sagði jafnan samviskusamlega frá (sérstaklega í Speglinum, sem gárungarnir kalla Hljóðviljann), þar sem Stefán, Þorvaldur Gylfason og skoðanabræður þeirra vinstra megin við miðju hneyksluðust á hinum mikla ójöfnuði á Íslandi.

Ég benti á það á móti, að kjör allra tekjuhópa á Íslandi hefðu batnað stórkostlega árin 1995–2004. Kjör hinna tekjulægstu hefðu batnað tvöfalt hraðar en nam meðaltalinu í löndum OECD þetta tímabil. Fyrir jafnaðarmenn, sem aðhylltust réttlætiskenningu Johns Rawls, hlyti þetta að skipta miklu meira máli en hversu hratt kjör tekjuhæstu hópanna bötnuðu.

1. febrúar 2007 kom síðan út skýrsla hagstofu Evrópusambandsins um lífskjör í Evrópulöndum. Þar mátti sjá, svo að ekki varð um villst, að tekjuskiptingin á Íslandi 2004 var síst ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum.

Hvað olli þessu ósamræmi? Stefán hafði gert reikningsskekkju. í útreikningum á Gini-stuðlum fyrir Ísland 2004 hafði hann í tölum tekjur tekið með söluhagnað af hlutabréfum. Gini-stuðlar fyrir önnur lönd, sem hann notaði til samanburðar, voru hins vegar reiknaðir út án söluhagnaðar af hlutabréfum.

Hagstofa Evrópusambandsins hafði hins vegar reiknað út Gini-stuðla fyrir Ísland og önnur lönd á sama hátt, borið saman sambærileg atriði. Fer ég rækilega yfir þetta allt í bók minni.

Stefán hefur aldrei leiðrétt skekkju sína opinberlega. En þegjandi og hljóðalaust tóku talsmenn Samfylkingarinnar ójöfnuð af dagskrá í kosningabaráttunni 2007. Sprengjan hafði sprungið framan í þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband