15.3.2010 | 16:47
Kosningasprengja Stefáns 2003
Fyrir kosningarnar 2003 voru kosningamál Samfylkingarinnar tvö, eins og menn muna. Hið fyrra var, að Davíð Oddsson væri duttlungafullur harðstjóri (sumir gengu jafnvel lengra, til dæmis Hallgrímur Helgason, og sögðu, að hann væri ekki heill á geðsmunum), sem sigaði lögreglunni á Baugsfeðga og aðra óvini sína. Þetta var meginstefið í fyrri Borgarnesræðu forsætisráðherraefnis Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, en tveir helstu almannatengslafulltrúar útrásarvíkinganna, Einar Karl Haraldsson og Gunnar Steinn Pálsson, skrifuðu þá ræðu.
Seinna kosningamálið var, að innan um alla velmegunina á Íslandi leyndist fátækt. Stefán Ólafsson prófessor sá um að koma þessu máli á framfæri, en hann var þá viss um, að Samfylkingin yrði í ríkisstjórn eftir kosningar. Í apríl 2003, skömmu fyrir kosningarnar, kom út bók á vegum stofnunar í Háskóla Íslands, sem Stefán veitti forstöðu, en Háskólinn og Reykjavíkurborg (sem þá var undir stjórn Samfylkingarinnar) kostuðu saman. Hét bókin Fátækt á Íslandi og var samin undir handleiðslu Stefáns, en höfundur hennar var Harpa Njáls, eins og hún kallaði sig.
Meginboðskapur bókarinnar var, að talsvert meiri fátækt væri hér en annars staðar á Norðurlöndum. Um 710% landsmanna byggju við fátækt. Í seinni Borgarnesræðu sinni, 15. apríl 2003, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Það er fátækt í íslensku samfélagi og birtingarmynd hennar hefur versnað. Hún hefur versnað vegna þess að íslenska velferðarkerfið hefur verið að þróast í anda frjálshyggjunnar. Og nú ætla ég að draga upp biblíuna mína, þessa nýju sem er þessi mikla bók Hörpu Njáls, Fátækt á Íslandi.
Daginn eftir, 16. apríl, gekk Harpa ásamt Stefáni Ólafssyni á fund forseta Íslands á Bessastöðum og afhenti honum bókina. Ólafur Ragnar Grímsson kvaðst sem fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði geta sagt, að þetta rit væri eitt hið merkilegasta, sem samið hefði verið á þessu fræðasviði.
En þessi kosningasprengja Stefáns og Samfylkingarinnar sprakk framan í þau, þegar upplýst var, að ein aðalástæðan til fátæktar í Reykjavík væri, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði ekki hækkað viðmiðunarmörk félagslegrar aðstoðar allt frá 1995 til 1999, auk þess sem ekki væri þar lengur tekið tillit til barnafjölda.
Sigurður Snævarr kynnti líka rannsókn sína, og samkvæmt henni var fátækt lítil á Íslandi, jafnlítil og annars staðar á Norðurlöndum. Hljóðnuðu þá þessar umræður.
Ég segi frá þessu í hinni nýju bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem komin er í bókabúðir. Ég segi líka frá viðamikilli rannsókn Evrópusambandsins á fátækt árið 2003, sem gefin var út árið 2007. Þar kemur fram, að á Íslandi var fátækt næstminnst í Evrópu. Hún var aðeins minni í Svíþjóð. (Þar sem lífskjör voru þá betri á Íslandi en í Svíþjóð, má ætla, að kjör fátækra á Íslandi hafi þá verið skárri en í Svíþjóð.) Um 5,3% voru undir fátæktarmörkum á Íslandi.
Hvernig stendur á því, að Stefán Ólafsson fullyrti 2003, að á Íslandi væri fátækt þá talsvert meiri en annars staðar á Norðurlöndum, en í ljós kom, að hún var hér svipuð og jafnvel minni? Er þetta ekki tilvalið efni fyrir rannsóknarblaðamenn?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook