15.3.2010 | 16:45
Hvar vegnar lítilmagnanum best?
Eftirlætisheimspekingur Samfylkingarinnar heitir John Rawls og var prófessor í Harvard-háskóla. Hann gaf 1971 út bókina Kenningu um réttlæti (A Theory of Justice), þar sem hann leiddi margvísleg rök að því, að réttlátt væri það skipulag, sem tryggði öllum hámarksfrelsi, en skipting gæðanna ætti að miðast við það, að hinir verst settu yrðu eins vel settir og framast væri unnt (þetta er stundum kallað hámörkun lágmarksins).
Réttlætiskenningu Rawls má gagnrýna með ýmsum rökum. Það hefur til dæmis annar stjórnmálaheimspekingur og prófessor í Harvard, Robert Nozick, gert afburðavel í bókinni Stjórnleysi, ríki og staðleysum (Anarchy, State and Utopia). Sjálfur er ég fjarri því að aðhyllast kenningu Rawls.
Tvennt er hins vegar merkilegt við kenningu Rawls. Hið fyrra er, að hún setur valdboðinni tekjujöfnun efri mörk, ef svo má segja. Öfund hlýtur að ráða, en ekki réttlætiskennd, ef ríkið gengur svo langt í tekjujöfnun, að hinir tekjulægstu uppskera að lokum minna en þeir myndu ella fá. Hið seinna er, að vissulega er vert að spyrja: Hvar eru hinir verst settu best settir í þeim heimi, sem við búum í? Hvar vegnar lítilmagnanum best?
Ég ræði þessa spurningu einmitt í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Þar segi ég frá vísitölu atvinnufrelsis, sem smíðuð hefur verið og lögð á hagkerfi heims. Ef við skilgreinum hina verst settu sem þau 10%, sem lægstar hafi tekjur, þá kemur í ljós, að kjör þeirra eru langskást í þeim löndum, þar sem atvinnufrelsi er víðtækast. Mjög sterkt samband er á milli lífskjara og atvinnufrelsis.
Hinir tekjulægstu njóta með öðrum orðum góðs af því eins og allir aðrir, þegar hagkerfið er opið og frjálst og einstaklingar hafa svigrúm til vinnu og verðmætasköpunar. Jafnvel þótt sneið þeirra af kökunni kunni að vera lítil, er hún í frjálsum löndum sneið af miklu stærri köku en í hinum ófrjálsu og þess vegna stærri sneið.
Aðrar mælingar, sem ég segi líka frá í bók minni, renna frekari stoðum undir þessa niðurstöðu: Ef við tökum jafnaðarmenn á orðinu og styðjum réttlætiskenningu Johns Rawls, þá verðum við líka að aðhyllast atvinnufrelsi og einkaframtak!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook