Áhrif skattahækkana

imagehandler_970721.jpgNú er bók mín, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, loks komin í bókabúðir. Ég ákvað að láta ekki dreifa henni fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. mars, enda hefði lágróma rödd mín drukknað í hávaðanum í kringum hana.

En þótt rödd mín sé lágróma, leyfi ég mér að halda því fram, að ég hafi margt að segja í þessari bók. Ætti ég að draga saman meginatriði hennar, þá væru þau þessi:

Sú kenning Johns Rawls er athyglisverð, að skoða skuli, í hvers konar skipulagi hinum verst stöddu reiði best af.

Mælingar (vísitala atvinnufrelsis) sýna, að þeim reiðir best af við atvinnufrelsi. Sterkt jákvætt samband er milli lífskjara hinna tekjulægstu og atvinnufrelsis.

Íslendingar fóru 1991–2004 „íslensku leiðina“, sem fólst í skattalækkunum, víðtæku atvinnufrelsi og þéttriðnu öryggisneti með rausnarlegri aðstoð við hina verst settu.

Íslenska leiðin, sem þá var farin, sameinar hið besta úr bandarísku og sænsku leiðunum. Bandaríkjamenn hirða lítt um þá, sem verst eru staddir, og Svíar lama vinnufýsi og verðmætasköpun með þyngri skattbyrði.

Margar kenningar helstu gagnrýnenda íslensku leiðarinnar, þeirra Stefáns Ólafssonar og Indriða Þorlákssonar, má hrekja með því að skoða staðreyndir um Ísland árin 1991–2004.

Tekjuskipting varð ekki að marki ójafnari þetta tímabil. Skattar voru ekki hækkaðir á laun þetta tímabil. Skattbyrði hinna tekjuhæsta var ekki léttari en hinna tekjulægstu. Kjör lífeyrisþega voru ekki lök þetta tímabil, heldur hin bestu á Norðurlöndum. Fátækt var ekki mikil á Íslandi þetta tímabil, heldur ein hin minnsta í heimi, hvernig sem mælt er.

Skattheimta hefur áhrif á vinnufýsi og verðmætasköpun, eins og rannsóknir Edwards C. Prescotts og Arthurs Laffers sýna. Laffer-boginn á við rök að styðjast: Við of háa skatta minnkar vinnufýsi, svo að skattstofninn minnkar og skatttekjur ríkisins lækka. Skattalækkanir geta því aukið skatttekjur.

Tvö skýr íslensk dæmi eru skatttekjur af leigutekjum af húsnæði og „skattfrjálsa árið“ 1987. Tvö erlend dæmi eru Sviss og Svíþjóð: Skatttekjur ríkisins á mann eru svipaðar í báðum löndum, en skattbyrðin tvöfalt þyngri í Svíþjóð.

Auðlinda- og umhverfisskattar eru ekki „hagkvæmir skattar“, eins og sumir hagfræðingar halda fram.

Fyrirhugaðar skattahækkanir vinstristjórnarinnar munu leiða til minni skattstofns og lægri skatttekna ríkisins, þegar fram í sækir. Langtímaáhrifin verða miklu verri en skammtímaáhrifin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband