Útvarpsstöð á Jamaíku

Það er auðvitað ekki af góðu, að margir erlendir fjölmiðlamenn hafa samband við mig og aðra þá, sem tekið hafa þátt í þjóðmálaumræðum á Íslandi. Ísland hefur vakið athygli á þann hátt, sem við kærum ekki ekki um.

Síðustu vikur hef ég því neyðst til að ræða við marga erlenda fjölmiðlamenn. En þrátt fyrir allt hafði ég gaman af því, þegar í morgun hringdi í mig útvarpsstöð alla leið frá Jamaíka til að forvitnast um ástand og horfur á Íslandi. Við mig töluðu Eric Anthony Abrahams, fyrrverandi ráðherra ferðamála, og Trevor Munroe, fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði, í þættinum „Breakfast Club“ á Newstalk 93 FM. Höfðu þeir lesið grein mína í Wall Street Journal á mánudaginn var, 8. mars 2010.

Þeir spurðu, hvernig Ísland hefði hrapað úr einu efsta sæti meðal þjóða heims eftir öllum mælingum. Ég svaraði, að árið 2004 hefði Ísland verið eitt af fimm ríkustu löndum í heimi (VLF á mann) og eitt af tíu frjálsustu löndunum (Index of Economic Freedom). Allir hefðu haft næg tækifæri til að brjótast til bjargálna. Tekjuskipting hefði verið tiltölulega jöfn og kjör hinna bágstöddustu betri en víðast annars staðar.

Eftir 2004 hefði jafnvægið raskast. Auðjöfrar og óreiðumenn hefðu náð völdum. Þeir hefðu stjórnað öllum fjölmiðlum og haft mikil áhrif á ráðamenn, jafnt á Bessastöðum og Alþingi (eða hefði ég átt að segja: uppi í Borgarnesi?). Dómstólar og Fjármálaeftirlit hefðu ekki veitt fésýslumönnum nægilegt aðhald. Kapítalistar væru vissulega kapítalismanum nauðsynlegir og almenningi gagnlegir með krafti sínum og hugkvæmni, en þeir ættu ekki að stjórna löndum.

Þetta væri þó ekki aðalskýringin á bankahruninu, heldur hitt, að kerfisgalli hefði verið í reglum Evrópska efnahagssvæðisins, EES. Tryggingarsvæði innstæðna hefði ekki verið hið sama og rekstrarsvæði bankanna, svo að stórkostlegt misræmi myndaðist milli umsvifa íslensku bankanna erlendis og getu heimalands þeirra til að aðstoða þá í erfiðleikum. Bretar hefðu síðan beitt Íslendinga fádæma fautaskap með því að leggja báða íslensku bankana í Bretlandi að velli og sett jafnvel annan þeirra á lista um hryðjuverkasamtök.

Jamaíkamenn spurðu um Icesave-samningana. Hvers vegna hefði stjórnin viljað semja við Breta, en þjóðin ekki? Ég svaraði, að Íslendingar viðurkenndu ekki neina greiðsluskyldu ríkisins. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, sem bankarnir greiddu til, átti að tryggja innstæður, ekki ríkissjóður Íslands. Þegar Bretar og Hollendingar tóku það upp hjá sjálfum sér að greiða í skyndingu út innstæður á Icesave-reikningum, mynduðu þeir enga skuld ríkissjóðs Íslands við sig, sem þeir geta síðan innheimt með offorsi.

Líklega hefði stjórnin viljað semja, af því að hún hefði ekki talið sig eiga annarra kosta völ, þótt það mat hennar hefði síðan reynst rangt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði sér til ævarandi skammar komið fram eins og handrukkari við Íslendinga, og Bretar og Hollendingar hótað öllu illu.

Að lokum sagði ég, að Íslendingar ættu að vinna sig út úr erfiðleikunum með því að framleiða meira og eyða minna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband