Breytingar á stjórnskipun?

Fugl viskunnar hefur sig á loft, þegar rökkva tekur, sagði Hegel. Hann átti við það, að við skiljum oftast ekki breytingar, fyrr en þær eru þegar orðnar. Við skipuleggjum ekki framtíðina, heldur reynum að skilja fortíðina og vonandi að einhverju leyti samtíðina.

Ég sé ekki betur en tvær breytingar séu að verða á stjórnskipun Íslands, sem var í tiltölulega föstum skorðum alla tuttugustu öld. Önnur er, að forsetinn er að fá aukin völd á kostnað þingsins. Núverandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur tvisvar synjað lögum staðfestingar og þannig gengið gegn vilja þingsins. Við þetta hefur embættið breytt um svip og jafnvel um eðli. Áður var forsetinn sameiningartákn þjóðarinnar og átti að vera ofar stjórnmálum. Nú er hann orðinn virkur þátttakandi í þeim.

Er þetta gott eða vont? Ég er ekki viss um svarið, en bendi á tvennt. Í fyrsta lagi hafði þjóðin ekki tekið neina ákvörðun um að breyta forsetaembættinu. Sá, sem nú situr í embættinu nýtti sér hins vegar (með hjálp áhrifamikilla álitsgjafa), að orðalag í stjórnarskránnni um valdsvið þess var óljóst, enda var forsetinn arftaki Danakonungs, sem hafði verið valdamikill á öldum áður, en var orðinn valdalaus, þegar Íslendingar hrópuðu hann af. Í öðru lagi vilja frjálslyndir menn frekar minnka vald en flytja það til. Valdið hefur ekki minnkað, heldur hefur það flust að einhverju leyti frá þingi til forseta.

Ef til vill má segja, að aukið jafnvægi myndist hér við það, að forseti verði mótvægi við þinginu. Á hinn bóginn hefur Ísland verið tiltölulega vel heppnað þingræðisríki (og breyta núverandi hremmingar engu um það), og Íslendingar eru hreyknir af því, að þjóðþing þeirra sé hið elsta í heimi.

Hin breytingin á stjórnskipun Íslands er, að líklega verður framvegis fleiri málum skotið til þjóðarinnar en áður. Er það gott eða vont? Enn er ég á báðum áttum. Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa reynst mjög vel í Sviss, enda er þar löng hefð fyrir þeim og lýðræði rótgróið. Svissneskir kjósendur hafa stöðvað marga óráðsíuna í atkvæðagreiðslum. En hætta er á því, þar sem slík hefð er ekki, að til verði einhvers konar „Bónapartismi“, þar sem lýðskrumarar í háum embættum leggja mál fyrir þjóðina með það eitt fyrir augum að auka eigin völd. Þjóðir eru ekki óskeikular frekar en einstaklingar.

Framtíðin ein sker úr, hvað verður. Erfitt er að spá í annað en fortíðina og þá samtíð, sem er óðum að verða fortíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband