Icesave-málið úr höndum þeirra

johannasigur_ardottir_968430.jpgÍ þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrradag, 6. mars 2010, greiddu um 98% þeirra, sem tóku afstöðu, atkvæði gegn heimildinni til fjármálaráðherra til að veita ríkisábyrgð á hugsanlegum skuldum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta við bresk og hollensk stjórnvöld samkvæmt samningi, sem fjármálaráðherra hafði gert við þessi stjórnvöld. Skýrari gat niðurstaðan ekki verið.

Þjóðin hafnaði Icesave-samningi þeim, sem Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon gerðu, tóku ábyrgð á og keyrði af mikilli hörku í gegnum Alþingi með stuðningi margra fjölmiðla og álitsgjafa. Nú viðurkenna jafnvel Jóhanna og Steingrímur, að völ var á betri samningi, og hafa þau nefnt 70 milljarðar króna sparnað fyrir Íslendinga í því sambandi. Þetta merkir, að mistök þeirra í fyrri samningi hefðu kostað þjóðina 70 milljarða króna, hefðu þau mistök ekki verið leiðrétt, forseti synjað lögunum um ríkisábyrgð staðfestingar og þjóðin fellt þau.

jon-asgeir-johannesson-415x275_968428.jpgÞau Jóhanna og Steingrímur reynast þjóðinni því eins kostnaðarsöm og umsvifamiklir útrásarvíkingar: 70 milljarðar króna, að minnsta kosti! Þess vegna er ekki að furða, að þau skötuhjúin virðast hafa gert einhvers konar leynisamkomulag við aðalútrásarvíkingana, Baugsfeðga. Það þarf enginn að segja mér, að jafnvarfærinn maður og Finnur Sveinbjörnsson í Arion banka leyfi Baugsfeðgum að reka áfram fyrirtæki eins og Haga (sem heldur Baugsmiðlunum uppi) án þess að fá um það fyrirmæli úr Stjórnarráðinu. Gegn þessari fyrirgreiðslu beita Baugsfeðgar fjölmiðlum sínum síðan ótæpilega fyrir stjórnina, eins og sást best í Icesave-málinu.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði ríkisstjórn, sem hefði fengið slíka útreið í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem sumir ráðherrarnir sátu jafnvel heima í ólund, sagt af sér. Allt traust á þessari stjórn er bersýnilega þorrið. En við lifum ekki á venjulegum tíma. Þótt Jóhanna og Steingrímur hafi sýnt það á undanförnum mánuðum, að þau réðu ekki við Icesave-málið, ætla þau að sitja sem fastast, jafnlengi og sætt er. Þau hóta því jafnvel að halda áfram að skipta sér af Icesave-málinu.

Stjórnarandstaðan verður að koma fram af festu. Hún má ekki leyfa Jóhönnu og Steingrími að gera leynisamkomulag við fjárglæframenn í því skyni að kaupa sér stuðning fjölmiðla. Það mál þarf að rannsaka og kynni að vera alvarlegt sakamál. Stjórnarandstaðan má ekki láta þau skötuhjúin leggja hér sjávarútveg í rúst eins og þau boða með svokallaðri „fyrningarleið“. Og stjórnarandstaðan verður ásamt þeim stjórnarliðum, sem bera hagsmuni Íslands fyrir brjósti, að taka Icesave-málið úr höndum Jóhönnu og Steingríms.

_gmundurjonasson.jpgÉg á sjaldan samleið með Ögmundi Jónassyni. En hann var sjálfum sér samkvæmur, heiðarlegur og þjóðhollur í Icesave-málinu, og ég treysti honum einnig ólíkt Jóhönnu og Steingrími til að láta ekki útrásarvíkinga og fjárglæframenn eins og Baugsfeðga kaupa sig. Hvers vegna sest hann ekki í ríkisstjórn og sér um áframhaldandi samninga við Breta og Hollendinga?

Eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði, er úrslitin í þjóðaratkvæðagreiðslunni urðu kunn, hlýtur Icesave-málið nú að fara til Alþingis. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband