Hrunkóngurinn

jon-asgeir-johannesson-415x275_967872.jpgÍ Pressunni í gær kallar Ólafur Arnarson Davíð Oddsson „hrunkónginn“ í hundraðasta sinn. En það er mikill misskilningur, sem sumir halda fram, að Ólafur stjórnist af hatri í garð Davíðs. Hann hefur enga ástæðu til að hata Davíð og gerir það áreiðanlega ekki. Hins vegar hefur hann fyrirmæli um það frá gömlum og nýjum vinnuveitendum sínum að ráðast á Davíð, hvar og hvenær sem hann getur.

Hvers vegna vilja vinnuveitendur Ólafs Arnarsonar, að ráðist sé á Davíð? Til þess eru tvær meginástæður. Önnur er sú, að Davíð var eini maðurinn, sem veitti þeim einhverja mótspyrnu, þegar þeir reyndu að leggja undir sig Ísland fyrstu árin eftir aldamótin. Baugsfeðgar og viðskiptafélagar þeirra töldu, að þeir væru hafnir yfir lög og rétt. Þegar starfsmaður þeirra, sem taldi sig eiga harma að hefna, kærði þá fyrir lögbrot, reyndu þeir að leggja hann að velli með málssóknum vestanhafs. Þegar það tókst ekki, reyndu þeir að kenna Davíð Oddssyni um!

Því miður tapaði Davíð fyrir Golíat í orrustunni um Ísland sumarið 2004. Til þess voru margar og flóknar ástæður, en ein hin mikilvægasta var, að Davíð naut sín ekki sem skyldi vegna veikinda árin 2004 og 2005. Golíat átti líka flesta fjölmiðlana og beitti þeim miskunnarlaust gegn Davíð. Tókst honum eflaust að veikja traust margra á honum. Á langri valdatíð Davíðs hafði hann auðvitað líka eignast marga óvildarmenn, sem kenndu honum ýmist um gengisleysi sitt í lífinu eða töldu hann ekki hafa komið fram við sig af nægri virðingu.

Hin ástæðan til þess, að vinnuveitendur Ólafs Arnarsonar vilja, að ráðist sé í sífellu á Davíð Oddsson, er, að þeir vilja leiða athyglina frá eigin þætti í bankahruninu íslenska. Orsakir þess voru sem kunnugt er aðallega fjórar: 

  1. Kerfisgalli í regluverki Evrópska efnahagssvæðisins: Rekstrarsvæði evrópskra banka var öll Evrópa, en innstæðutryggingarsvæðin voru einstök lönd.
  2. Fautaskapur Breta, sem settu Landsbankann á lista yfir hryðjuverkasamtök og neituðu að rétta hinum breska banka Kaupþings hjálparhönd á örlagatímum.
  3. Vanmáttur íslenskra stjórnvalda, sem daufheyrðust við endurteknum viðvörunum Davíðs Oddssonar úr Seðlabankanum. Fjármálaeftirlitið hafði ekki burði til að eiga við bankana og auðjöfrana, eins og nýjustu fréttir sýna best.
  4. Glannaskapur stjórnenda og eigenda íslensku bankanna. Þeir jusu peningum eins og óðir menn í Baugsfeðga og viðskiptafélaga þeirra, svo að þeir skulduðu eitt þúsund milljarða króna, þegar upp var staðið, og munu aldrei geta greitt nema brot af þessum skuldum.

jon_sgeirsnekkja.jpgAuðvitað vildi enginn bankahrunið, síst bankamennirnir sjálfir. En ef einhver einstakur maður verðskuldar nafnið „hrunkóngur“, þá er það Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var leiðtogi útrásarvíkinganna og skuldakóngur Íslands (og þótt víðar væri leitað). Síðustu daga og vikur hafa birst fréttir um ótrúlega gerninga hans fyrir hrun, á milli þess sem hann naut lífsins í einkaþotu sinni eða lystisnekkju og skálaði við vini sína í skrauthýsum erlendis. Hann skapaði með liði sínu hið einkennilega andrúmsloft, sem hér var árin 2004–2008 og átti drjúgan þátt í hruninu.

Golíat er enn á ferð, og enn er hann voldugur. Hann hefur bersýnilega gert bandalag við vinstristjórnina: Baugsfeðgar fá að halda fyrirtækjum sínum gegn því, að fjölmiðlar þeirra styðji vinstristjórnina. Golíat hefur í þjónustu sinni fjölda fjölmiðlamanna, sem skrifa á hverjum degi hatursgreinar gegn Davíð Oddssyni. Það er ekki skemmtilegasta verk í heimi að reyta upp arfann, sem þeir reyna að sá, en gera verður fleira en gott þykir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband