Rétturinn til að kjósa

Ég hef kosið í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég sagði nei við því, að lög þau, sem heimiluðu fjármálaráðherra að veita ríkisábyrgð á hugsanlegum skuldum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta við bresk og hollensk stjórnvöld, héldu gildi sínu.

Ég kýs alltaf, þegar ég má við því. Til dæmis tók ég þátt í forsetakjöri sumarið 2004, en skilaði auðu, því að mér leist ekki á neinn kostinn, sem þá var í boði. Ég kýs, af því að mér er ánægja að því að búa í lýðræðisríki.

Vitaskuld má ofmeta lýðræðið. Sum mál eru ekki til þess fallin að láta greiða um þau atkvæði, og engin trygging er fyrir því, að skoðun sé skynsamleg, af því að flestir hafi hana. Þótt meiri hlutinn hafi ekki alltaf rangt fyrir sér, eins og Ibsen segir í Þjóðníðingnum, hefur meiri hlutinn ekki heldur alltaf rétt fyrir sér.

Lýðræðið er samt hemill valdbeitingar. Meginkosturinn við lýðræðið er, að losna má við valdhafana — eða eins og í þessari atkvæðagreiðslu ógilda ákvarðanir þeirra — án þess að þurfa að skjóta þá, eins og Vilmundur landlæknir Jónsson komst hnyttilega að orði (en líklega sótti hann þá speki til Clements Attlees, leiðtoga breska Verkamannaflokksins).

Furðulegt er, þegar ráðherrar vinstristjórnarinnar segja þessa atkvæðagreiðslu marklausa. Hún snýst einmitt um að ógilda rangar ákvarðanir þeirra. Þótt sjálfir hafi ráðherrarnir viðurkennt, að ákvarðanirnar voru rangar (því að völ er á betri samningum að þeirra sögn við Breta og Hollendinga), standa þær enn. Lögin, sem heimiluðu fjármálaráðherra að veita ríkisábyrgðina, eru enn í gildi.

Brýnt er að fella þau úr gildi. Íslendingar eiga ekki að greiða skuldir óreiðumanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband