6.3.2010 | 11:57
Samfylkingin bregst
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og leiðtogi Samfylkingarinnar, ætlar að sitja heima, en kjósa ekki gegn Icesave-samningnum, sem Bretar og Hollendingar þröngvuðu henni til að samþykkja, en eru nú reiðubúnir til að endurskoða Íslendingum í hag. Þetta eru mikil mistök.
Það skilja allir, að stundum þarf að gera fleira en gott þykir. Hitt er lítt skiljanlegt, þegar menn gera illa nauðsyn að dygð. Hvers vegna getur Jóhanna ekki viðurkennt, að þetta voru nauðungarsamningar?
Bretar og Hollendingar eru vissulega miklu voldugri þjóðir en við, svo að auðvitað þarf að semja við þá. En íslenskur almenningur á ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Evrópskir ráðamenn hafa líka viðurkennt, að reglur EES gilda ekki um allsherjarbankahrun. Í þriðja lagi er það ekki hagur þessara stórþjóða að knýja vinveitta smáþjóð í nágrenninu í þrot vegna skuldar, sem hún stofnaði ekki til. Enn fremur eiga Bretar sjálfir mikla sök á því með framgöngu sinni í hruninu, hversu illa fór.
Árið 1901 áttu Íslendingar í deilu við Dani um heimastjórn. Skyndilega létu Danir undan og sendu Íslendingum tvö tilboð, og var annað hagstæðara, um heimastjórn og sérstakan ráðherra í Reykjavík. Þá gerði Valtýr Guðmundsson, sem staðið hafði næstur ráðherradómi allra Íslendinga, mikil mistök. Hann vildi taka óhagstæðara tilboðinu, af því að það hentaði honum sjálfum betur. (Hann vildi sitja í Kaupmannahöfn, ekki Reykjavík.) Afleiðingin varð, að hann náði aldrei þeim frama, sem hann verðskuldaði vegna afburðahæfileika, og flokkur hans sundraðist.
Jóhanna Sigurðardóttir er ekki jafnmiklum hæfileikum búin og Valtýr Guðmundsson. En hún gerir sams konar mistök í þetta skipti. Hún vill ekki segja afdráttarlaust nei við óhagstæðara tilboðinu, þótt komið sé fram hagstæðara tilboð (jafnvel að hennar eigin sögn). Í Samfylkingunni er margt gott og gegnt hæfileikafólk. En ef flokkurinn á að eiga sér lífs von, þá verður hann að vera íslenskur flokkur. Höfuðborg okkar heitir Reykjavík, hvorki Kaupmannahöfn né Brüssel.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:05 | Facebook