Hertu upp hugann, Einar!

270_w270_967041.png

 

Einn vinsælasti rithöfundur þjóðarinnar, Einar Kárason, er tekinn að skrifa pistla á Pressunni. Kveðst hann raunar þurfa að herða upp hugann til að taka þátt í þjóðmálaumræðunni um þessar mundir. Einar spyr:

En ætli nokkur maður, sem á annað borð er fær um að hugsa heila hugsun, trúi því í hjarta sér að fólk eins og Steingrímur Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir kjósi að svíkja málstað Íslendinga og „ganga erinda Hollendinga og Breta“? Hvað annað í störfum þeirra, orðum og athöfnum, bendir til þess að þau séu fólk af því tagi?

Ég svaraði því til, að ég tryði því ekki fremur en Einar. Þau Steingrímur og Jóhanna vilja áreiðanlega ekki svíkja land sitt eða þjóð.

Hvað veldur því framferði þeirra síðustu mánuðina, — hinni dæmalausu og óþörfu linkind og undanlátssemi við Breta og Hollendinga? Ég kastaði fram þremur skýringum:

  1. Hvorugt þeirra er reyndur forystumaður, sem þurft hefur að bera ábyrgð.
  2. Bæði hafa þau sennilega misst sjálfstraustið við bankahrunið og taka þess vegna útlendinga hátíðlegar en góðu hófi gegnir.
  3. Bæði trúa þau því eflaust, að Íslendingar muni aldrei þurfa að greiða alla þá upphæð, sem fjármálaráðherra var veitt heimild til að ábyrgjast úr ríkissjóði.

Þótt ég efist þannig ekki um, að þau Steingrímur og Jóhanna vilji eftir bestu samvisku gæta hagsmuna Íslands, er margt stórkostlega aðfinnsluvert í framgöngu þeirra eftir valdatökuna í febrúarbyrjun 2009.

Jóhanna lét það verða sitt fyrsta verk að níðast á gömlum samstarfsmanni, Davíð Oddssyni, og ráðast gegn sjálfstæði seðlabankans. Með því rauf hún þau gagnkvæmu grið milli manna, sem þegjandi samkomulag hefur verið um í íslenskum stjórnmálum. (Davíð kom til dæmis ekki í veg fyrir það, að Steingrímur Hermannsson yrði seðlabankastjóri eða þeir Jón Baldvin Hannibalsson og Svavar Gestsson sendiherrar, enda á ekki að setja atvinnubann á fyrrverandi stjórnmálamenn.) Valdníðslu Jóhönnu verður lengi minnst.

Steingrímur skiptir um skoðun eftir hentugleikum. Á meðan hann var í stjórnarandstöðu, ólmaðist hann gegn hugsanlegu Icesave-samkomulagi. Eftir að hann var kominn í stjórn, gafst hann að óþörfu upp fyrir Bretum og Hollendingum. Hinir svokölluðu samningamenn, sem hann sendi til útlanda, sömdu ekki um neitt, heldur framvísuðu aðeins hér á landi reikningum frá Bretum og Hollendingum.

Þau Steingrímur og Jóhanna láta það átölulaust, að fjárglæframennirnir, sem mesta ábyrgð bera á bankahruninu, Baugsfeðgar, njóti aðstoðar banka í almenningseigu til að stýra fjölmiðlum „sínum“ og hafa þannig óeðlileg áhrif á skoðanamyndun í landinu. Fulltrúar þeirra Steingríms og Jóhönnu í Arion banka og annars staðar hafa jafnvel beitt sér fyrir því, að Baugsfeðgar fái að halda Högum og öðrum fyrirtækjum „sínum“, en skuldir þeirra séu afskrifaðar. (Til samanburðar má geta þess, að á sama tíma voru fjölmiðlar Björgólfs Guðmundssonar teknir af honum, jafnframt því sem Steingrímur hafði stór orð um það opinberlega, að bankar mættu ekki semja við hann um neinar afskriftir.)

Ráðherrar vinstristjórnarinnar hafa tekið stuðningi við málstað Íslendinga í Icesave-deilunni fálega, eins og ég hef hér iðulega rakið: Eva Joly var áminnt fyrir skörulegar greinar; Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal voru ekki virtir viðlits; upprifjun Sigurðar Kára Kristjánssonar og Davíðs Oddssonar á ummælum hollenska fjármálaráðherrans og evrópska seðlabankastjórans um bankahrun var ekki sinnt; ábendingum erlends hagfræðings, bankaráðsmanns í Seðlabankanum, um vaxtakjör var vísað á bug; stórfróðlegar yfirlýsingar forstöðumanns hins norska tryggingarsjóðs innstæðueigenda skipta íslensk stjórnvöld engu máli.

Kjarni málsins er sá, að ekki er og hefur aldrei verið ríkisábyrgð á hinum íslenska tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Fjárkröfur Breta og Hollendinga eru þess vegna óréttmætar.

Í Icesave-málinu þurfa Steingrímur og Jóhanna að herða upp hugann og þora að vera Íslendingar. Hið sama ætti Einar Kárason að gera.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband