Ráðlausir ráðherrar — stjórnlaust land

johannaogsteingrimur.jpgAfstaða ráðherra núverandi vinstristjórnar til þjóðaratkvæðagreiðslunnar næstkomandi laugardag sýnir, að þeir eru ráðlausir. Þau slá úr og í. Jóhanna segir koma til greina að fresta atkvæðagreiðslunni. Steingrímur segist ekki vera viss um, hvort hann taki þátt í henni.

Þessir ráðherrar vita jafnvel og aðrir, að Icesave-lögin, sem forseti synjaði staðfestingar, munu verða felld úr gildi í atkvæðagreiðslunni. Um leið yrði slík niðurstaða áfellisdómur um þá samninga, sem stjórnin gerði við Breta og Hollendinga, og sigur þess ráðherra, sem sagði af sér í mótmælaskyni við þá (Ögmundar Jónassonar), og um leið vitanlega stjórnarandstöðunnar, sem gagnrýndi þá harðlega.

Íslendingar vilja ekki greiða skuldir óreiðumanna. Ríkissjóður Íslands ber ekki ábyrgð á hinum íslenska Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta fremur en ríkissjóður Noregs ber ábyrgð á hinum hliðstæða norska tryggingarsjóði, eins og forstöðumaður þess sjóðs hefur tekið skýrt fram. Samningarnir við Breta og Hollendinga voru nauðungarsamningar, auk þess sem hinir óreyndu og hræddu samningamenn stjórnarinnar gengu miklu lengra en þeir hefðu þurft að gera.

Komið hefði til greina, strax og synjun forsetans lá fyrir, að Alþingi felldi Icesave-lögin úr gildi og sneri sér til Breta og Hollendinga með ósk um nýja samninga. En sá tími er liðinn. Nú eru þrír dagar til þjóðaratkvæðagreiðslunnar! Hún verður auðvitað að fara fram, eins og stjórnarskrá kveður á um. Þeirri óvissu, sem er um nýja samninga við Breta og Hollendinga, verður ekki eytt á þremur dögum.

jon_sgeireinkathota.jpgEn ekki er nóg með, að ráðherrar séu ráðlausir, heldur er landið stjórnlaust. Baugsfeðgar, sem söfnuðu þúsund milljarða króna skuldum í íslensku bönkunum, á milli þess sem þeir skemmtu sér í einkaþotum, lystisnekkjum og skrauthýsum erlendis, vaða hér uppi. Þeir eiga að halda yfirráðum yfir Högum með stórfelldum afskriftum skulda. Fjármálaráðherra, sem gagnrýnt hafði hugmyndir um afskriftir til Björgólfsfeðga, segir ekki orð. Svo ósvífnir eru Baugsfeðgar, að þeir heimta, að háskólakennarar, sem gagnrýni þá, séu reknir. Menntamálaráðherra segir ekki orð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband