NEI í þjóðaratkvæðagreiðslunni

c_users_asdis_pictures_isl_faninn_966402.jpgFæstum kemur sennilega á óvart, að ég ætla að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn kemur um það, hvort staðfesta eigi lög þau um ríkisábyrgð á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sem Bretar og Hollendingar neyddu Íslendinga til að samþykkja síðastliðið haust.

Sumir halda því fram, að atkvæðagreiðslan sé tilgangslaus, þar eð þegar sé völ á betri samningum við Breta og Hollendinga. En í mínum huga skiptir mestu máli, að þjóðin sendi umheiminum afdráttarlaus skilaboð um það, að hún telji sér ekki skylt að greiða skuldir óreiðumanna.

Mér kemur helst á óvart áhugaleysi núverandi vinstristjórnar á að halda fram sjónarmiðum og hagsmunum Íslendinga, innan lands sem utan. Þegar Eva Joly skrifaði í ágúst 2009 skorinorða grein í erlend blöð Íslendingum til varnar, fann aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra beinlínis að því á Netinu.

Þegar Sigurður Kári Kristjánsson vakti athygli á ummælum fjármálaráðherra Hollands, Wouter Bos, um, að reglur Evrópska efnahagssvæðisins um innstæðutryggingar ættu ekki við í allsherjarbankahruni, létu vinstristjórnin og starfslið hennar sér fátt um finnast. Áður hafði Davíð Oddsson bent á svipuð ummæli Jean-Claude Trichet, bankastjóra Evrópska seðlabankans.

Þegar Sigurður Líndal, Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal sögðu opinberlega, að hvergi væri finnanlegur lagabókstafur því til stuðnings, að ríkissjóðir aðildarlanda EES bæru ábyrgð á tryggingarsjóðum innstæðueigenda þeirra landa, gerði vinstristjórnin ekkert til að koma sjónarmiði þeirra á framfæri erlendis.

Þegar fulltrúi Framsóknarflokksins í bankaráði Seðlabankans, erlendur hagfræðingur, taldi eðlilegt, að hinn íslenski tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta nýti að minnsta kosti sömu hagstæðu vaxtakjara og tryggingarsjóðir Bretlands og Hollands, svöruðu talsmenn vinstristjórnarinnar skætingi einum.

Hvað veldur þessu undarlega áhugaleysi? Ég trúi því ekki, að þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni gangi illt til. Þau eru engir landráðamenn í hjarta sínu. Ég kem auga á þrjár ástæður.

Í fyrsta lagi eru þau Jóhanna og Steingrímur ekki reyndir stjórnmálamenn í þeim skilningi, að á þeim hafi hvílt ábyrgð um stjórn landsins. Þótt Jóhanna hafi setið í stjórn, hefur hún þar aldrei tekið á sig neina ábyrgð, heldur aðeins heimtað og hótað. Steingrímur kann betur að tala en stjórna.

Í öðru lagi hafa þau eins og margir aðrir Íslendingar eflaust misst sjálfstraust við hrunið. Þau bera óttablandna virðingu fyrir útlendingum, sem tala spekingslega. Dæmi þeirra sýnir, að skammt er frá þjóðrembu til útlendingaþjónkunar.

Í þriðja lagi hafa þau Jóhanna og Steingrímur sennilega bæði trúað því í einlægni, að Íslendingar myndu aldrei þurfa að inna af höndum hinar umsömdu greiðslur, og ef þeir þyrftu að gera það, þá yrði það ekki allt og ekki, fyrr en löngu eftir að þau væru bæði hætt stjórnmálaafskiptum. Það kostaði þau því lítið að semja, en með því tækist þeim að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum, — sem virtist stundum vera helsti tilgangur þeirra í þrengingum okkar Íslendinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband