1.3.2010 | 13:22
Óráð að aflýsa þjóðaratkvæðagreiðslunni
Ég er sem kunnugt er ekki í hópi heitustu aðdáenda Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. En því verður ekki neitað, að hann steig heillaspor, þegar hann synjaði staðfestingar lögunum um ríkisábyrgð á skuldum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, en hana höfðu Bretar og Hollendingar með hótunum (og misnotkun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri stofnana) knúið vinstristjórnina til að samþykkja.
Með synjuninni gafst þjóðinni kostur á að senda umheiminum afdráttarlaus skilaboð, jafnframt því sem Icesave-málið komst aftur á dagskrá erlendis, eins og nýleg forystugrein Financial Times sýnir ef til vill best. Hvergi er kveðið á um það í lögum og alþjóðasamningum, að ríkissjóðir einstakra landa EES séu ábyrgir fyrir skuldum tryggingarsjóða innstæðueigenda í löndunum, auk þess sem allir skynsamir menn viðurkenna, að reglur EES um innstæðutryggingar voru ekki samdar með allsherjarbankahrun í huga.
Ég trúi því ekki að óreyndu, að neinir ábyrgir menn á Íslandi leggi til, að við samþykkjum Icesave-lögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars núkomandi. Miklu varðar að fella þessi lög með sem mestum mun.
Átökin um fjölmiðlafrumvarpið sumarið 2004 staðfestu tvær íslenskar stjórnskipunarreglur, sem áður höfðu verið umdeildar. Forseti Íslands getur í fyrsta lagi synjað lögum staðfestingar án atbeina ráðherra, og verður þá þjóðin að staðfesta lögin eða synja þeim staðfestingar og fella þau með því úr gildi. Í öðru lagi getur Alþingi fellt lög úr gildi, og kemur þá ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og stjórnarskrá mælir þó fyrir um.
Það er hins vegar óheppilegt af mörgum ástæðum, að Alþingi felli Icesave-lögin úr gildi og stjórnin aflýsi við það þjóðaratkvæðagreiðslunni. Í fyrsta lagi er tíminn allt of naumur: Þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram eftir sex daga! Í öðru lagi er allt of mikil óvissa um hugsanlega nýja samninga við Breta og Hollendinga til þess, að unnt sé að fella lögin úr gildi að svo stöddu. Þeirri óvissu verður ekki eytt á nokkrum dögum. Í þriðja lagi er það ekki hlutverk Breta og Hollendinga að stjórna því eða hafa á það óeðlileg áhrif, hvenær Íslendingar greiða atkvæði um lög. Í fjórða lagi er mikilvægt að senda umheiminum (þar á meðal Norðurlöndum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum) þau skýru skilaboð, að við látum ekki troða á okkur.
Smáþjóðir eiga vissulega meira undir stórþjóðum en stórþjóðir undir smáþjóðum. Þess vegna hljótum við að leggja áherslu á að semja við Breta og Hollendinga. Þetta eru vinaþjóðir okkar og bandamenn í Atlantshafsbandalaginu og á Evrópska efnahagssvæðinu. En samningar við þessi ríki mega ekki vera nauðungarsamningar. Ég lýt hátigninni, en stend á réttinum, sagði Staðarhóls-Páll forðum. Við lútum nauðsyninni, en stöndum á réttinum, geta Íslendingar sagt á því Herrans ári 2010.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook