Nú reynir á nýjan ritstjóra

crop_260x_965663.jpgÉg óska hinum nýja ritstjóra Fréttablaðsins, Ólafi Stephensen, til hamingju með starfið. Enginn vafi er á því, að hann hefur hæfileika og dugnað til að gegna því. En á honum hvílir þung siðferðileg skylda.

Fréttablaðið er sent ókeypis inn á hvert heimili á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Menn geta ekki sagt upp áskrift að því eins og Morgunblaðinu og DV. Ekki fer vel á því, að slíkt blað gangi erinda einhverra manna eða afla, eins og það hefur þó gert rösklega, frá því að Jón Ásgeir Jóhannesson keypti það á laun á útmánuðum 2003.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum á Jón Ásgeir blaðið enn þrátt fyrir margfalt gjaldþrot sitt, — þrátt fyrir þúsund milljarða skuldir í íslensku bönkunum. Ég vona, að Ólafur Stephensen fórni ekki blaðamannsheiðri sínum með því að misnota Fréttablaðið í þágu núverandi aðaleiganda (þótt hálfgerð öfugmæli séu að tala um þennan skuldakóng Íslands sem eiganda eins eða neins).

Jón Ásgeir hefur línu, sem hann reynir að láta fjölmiðla sína og leigupenna fylgja:

  • Beinið athyglinni að öllum öðrum auðjöfrum og útrásarvíkingum en mér, svo að minningin um skuldasöfnun mína í íslensku bönkunum, lystisnekkju, einkaþotu, skrauthýsi, veisluglaum og munaðarlíf í mörgum löndum dofni.
  • Reynið með öllum ráðum að telja þjóðinni trú um, að Davíð Oddsson sé duttlungafullur harðstjóri, sem græti vini sína (!) og sigi lögreglunni á óvini sína. Baugsmálið hafi verið undan hans rifjum runnið, en engin sök liggi hjá mér.
  • Rekið bankahrunið til þess, að Ísland var utan Evrópusambandsins og burðaðist með hina ónýtu krónu Davíðs í Seðlabankanum. Þá munu menn ekki átta sig eins á því, hvernig skuldasöfnun mín í íslensku bönkunum átti sinn þátt í hruninu.
  • Mælið með því, að ég fái aftur að eignast fyrirtæki mín eftir stórfelldar afskriftir, því að það sé hagkvæmast og eðlilegast fyrir banka, starfsfólk fyrirtækjanna og viðskiptavini.

Fréttablaðið var í svo harðri samkeppni við DV um að fylgja þessari línu, að Hallgrímur Helgason rithöfundur uppnefndi forvera Ólafs í ritstjórastóli „Jón Ásgeir Kaldal“, þótt skrif Fréttablaðsins væru vissulega oftast hófsamlegri en DV og stundum hefðu birst í báðum blöðunum málamyndafréttir af Baugsfeðgum.

husjohannesar.jpgEn nú er nýtt mál komið til sögunnar, sem forvitnilegt verður að sjá, hvernig Fréttablaðið skrifar um á næstu dögum: Jóhannes í Bónus, faðir Jóns Ásgeirs, skaut eignum undan til Bandaríkjanna. Hann lét í nóvember 2009 skrá nær tvö hundruð milljón króna skrauthýsi „sitt“ í Flórída á „The Johannes Jonsson Trust“. Þetta er maðurinn, sem sagðist kokhraustur ekki þurfa neinar afskriftir frá Arion banka! Þeir Baugsfeðgar myndu greiða upp allar sínar skuldir!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband