Sannleikurinn um tölvuskeytin

imagehandler_963712.jpgÉg hef hér rekið ofan í Hrein Loftsson, útgefanda DV, hvern lygaþvættinginn af öðrum. Hann spann fáránlega sögu um, að ég hefði hágrátið undan Davíð Oddssyni. Ég rakti það mál, þar sem hvergi kom neinn grátur við sögu.

Hreinn harðneitaði því, að hann hefði einhver afskipti af ritstjórn DV. Ég benti á, að Sigurjón M. Egilsson, fyrrverandi ritstjóri, væri heimildarmaður minn, og hefði hann undir höndum tölvuskeyti frá Hreini máli sínu til staðfestingar.

Ég minnti einnig á, að Hreinn væri einn þeirra fjölmörgu manna, sem látið hafa gullið glepja sig. Hann gekk Baugsfeðgum á hönd og tók þátt í aðför þeirra að fyrri vinum og samverkamönnum. Hann fórnaði vináttu manna og sannfæringu fyrir fé, sem virðist nú raunar vera mestallt horfið.

Hreinn gat í síðustu kveðju sinni til mín um það, að ég hefði sent sér tölvuskeyti sumarið 2008. Ég skal stuttlega rekja það mál, sem er fróðlegt, þótt ég hefði ætlað að láta kyrrt liggja af ástæðum, sem koma munu í ljós.

Eftir að Vigdís Finnbogadóttir forseti lýsti því yfir í ársbyrjun 1996, að hún hygðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs, heyrðust raddir um það, að eðlilegasti arftaki hennar væri Davíð Oddsson. Við Hreinn Loftsson, sem þá vorum vinir og samverkamenn, vorum ekki þessarar skoðunar. Við efuðumst að vísu hvorugur um, að hann yrði góður forseti. En við töldum, að hann ætti margt ógert í stöðu forsætisráðherra. Við vildum báðir, að hann héldi áfram stjórnmálaþátttöku.

Sjálfur kvaðst Davíð ekki íhuga framboð. Hann hlyti þó að velta framtíðinni fyrir sér. Hugsanlega ætti hann að hætta stjórnmálaþátttöku, þótt hann væri vissulega ekki á leið á Bessastaði. Hreinn vildi hins vegar kanna, hver stuðningur við Davíð í forsetastólinn væri. Reyndist stuðningurinn ekki mikill, væri hugmyndin sem betur fer sjálfdauð. Ég mælti með því, að leitað yrði til félagsvísindastofnunar Háskólans, þar sem Stefán Ólafsson væri forstöðumaður. Honum væri treystandi.

stefanolmynd_403847_963715.jpgHreinn gerði þetta. Hann fékk í algerum trúnaði Stefán Ólafsson til að sjá um skoðanakönnun á vegum félagsvísindastofnunar. Síðan sagði Hreinn mér, að stuðningur við Davíð í embætti forseta hefði ekki reynst mikill í þessari könnun. Flestir væru ánægðir með hann, þar sem hann væri (enda vann Davíð einn sinn mesta kosningasigur vorið 1999, þótt hann hefði þá verið forsætisráðherra í átta ár samfleytt). Ekkert kom fram um þetta opinberlega.

Liðu nú tólf ár. Sumarið 2008 birti Matthías Johannessen ritstjóri dagbók sína frá 1996 á Netinu. Þar er skrifað 8. maí 1996:

„Stefán Ólafsson félagsfræðingur sagði okkur Styrmi í morgun í trúnaði að nokkrir vinir Davíðs Oddssonar hefðu beðið Félagsvísindastofnun um að gera könnun á fylgi hans ef hann færi í forsetakjör. Könnunin var gerð skömmu fyrir páska en þó eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti um framboð sitt. Niðurstöður könnunarinnar voru þær að Ólafur fengi um 60% af fylgi þeirra 80% sem svöruðu og tóku afstöðu. Ég man ekki fylgi annarra frambjóðenda en það var hverfandi. Og sjálfur Davíð Oddsson hlaut ekki nema um 10% atkvæða. Margir voru alfarið á móti honum, aðrir vildu að hann héldi áfram í núverandi störfum. Stefán taldi að hann hefði getað reiknað með eitthvað yfir 30% atkvæða ef hann hefði farið í framboð. En þá hefðu þeir sem vildu að hann héldi áfram núverandi störfum kosið hann þegar á hólminn væri komið.“

Þetta mislíkaði Hreini bersýnilega, því að hann lét DV strax taka málið upp og hringja í Stefán, sem bar þetta af sér. Ég tel hins vegar einsýnt, að vorið 1996 braut Stefán freklega trúnað sem forstöðumaður félagsvísindastofnunar. Ekki er minnsta ástæða til að efast um, að Matthías sagði sannleikann í dagbók sinni, enda kom allt þar heim og saman við það, sem Hreinn hafði sagt mér 1996.

Um þetta voru tölvuskeytin, sem fóru okkur Hreini í milli sumarið 2008. Hreinn sagðist í skeyti til mín vera sammála mér um Stefán Ólafsson, en engum væri greiði gerður með því að halda málinu áfram.

Ég komst á sömu skoðun, þegar ég hugsaði málið. Það var ekki af neinni sérstakri tillitssemi við Stefán, heldur við mína ágætu samkennara í félagsvísindadeild, sem hafa reynst mér vel í blíðu og stríðu og ég tel langflesta góða vini mína. Ég vildi ekki koma þeim í uppnám, og sumir þeirra voru og eru vinveittir Stefáni. Ég er á skemmtilegum vinnustað og vil engu um það breyta. Málið snerti mig líka aðeins óbeint. Þess vegna aðhafðist ég ekkert frekar.

Það breytir engu um, að trúnaðarbrot Stefáns var vitaskuld stóralvarlegt. Hreinn Loftsson hefur nú vakið athygli á því, svo að um munar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband