22.2.2010 | 11:48
Sannleikurinn í málinu
Hreinn Loftsson, útgefandi DV, spinnur á Netinu upp fáránlega sögu, sem á að sýna, að ég hafi verið eitt versta fórnarlamb þöggunar Davíðs Oddssonar.
Sannleikurinn í málinu er einfaldur. Von var á Kínaforseta til landsins í júní 2002. Davíð Oddsson var forsætisráðherra, og það féll í hlut forsætisráðuneytisins að sjá um heimsóknina. Falun Gong-hreyfingin vildi efna til mótmælaaðgerða. Lögreglan tók því illa og reyndi að torvelda aðgerðir hreyfingarinnar. Margir töldu, að lögreglan færi offari. Illugi og Hrafn Jökulssynir skipulögðu undirskriftasöfnun til að biðja mótmælendur afsökunar á því, hversu langt lögreglan gengi.
Við vinirnir Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson ræddum þetta okkar í milli. Allir höfðum við samúð með andstæðingum Kínastjórnar. (Um stjórnarfar í Kína má fræðast í bókinni Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi og kom út haustið 2009.) En skoðanir voru skiptar um annað í okkar hópi. Birni fannst tekið of hart á mótmælendum, Kjartani fundust báðir aðilar hafa nokkuð til síns máls, og Gunnlaugur Sævar studdi Davíð. Ég var sömu skoðunar og Björn.
Þegar Hrafn Jökulsson hringdi í mig og bað mig um að skrifa undir, ákvað ég að gera það, ekki síst til að sýna andstöðu við Kínastjórn. Þegar Davíð sá nafn mitt á undirskriftalistanum, hringdi hann í mig. Hann var mér sár, en ekki reiður. Hann skýrði út, að Ísland væri bundið af alþjóðlegum samningum um vernd þjóðhöfðingja í opinberum heimsóknum þeirra. Falun Gong-hreyfingin virtist hafa ákveðið að láta reyna á það, hversu vel þetta litla ríki á hjara veraldar gæti varið hinn mikilvæga gest. Nú sæti hann sem forsætisráðherra undir harðri og ómaklegri gagnrýni fyrir það eitt að gegna skyldu sinni. Hann lauk samtalinu á þessum kjarnmiklu og eftirminnilegu orðum: Ég hef aldrei beðið afsökunar á Hannesi Hólmsteini. En nú biður Hannes Hólmsteinn afsökunar á mér.
Mér þótti þetta miður. Ég sagði Gunnlaugi Sævari strax frá þessu samtali, og hann ráðlagði mér að skýra afstöðu mína betur út fyrir Davíð. Ég settist niður og skrifaði Davíð stutt bréf, þar sem ég gerði þetta, en kvaðst skilja sjónarmið hans mjög vel. Þegar öll spjót stæðu á honum (eins og vissulega var í þessu Kínamáli), ættu vinir hans auðvitað ekki að gera neitt það, sem skilja mætti opinberlega sem árás á hann. Þeir ættu frekar að láta gagnrýni sína í ljós við hann beint og milliliðalaust. Sá er vinur, sem til vamms segir, en máli skiptir, hvar það er gert og undir hvaða formerkjum.
Strax og Davíð fékk þetta bréf, hringdi hann aftur í mig. Hann sagði, að þetta væri gott bréf. Við værum ekki sammála um allt í þessu Kínamáli, en vinátta okkar hefði ekki haggast. Ég kvaðst sem satt er skilja hans sjónarmið betur við nánari umhugsun. Ísland verður að geta verndað erlenda þjóðhöfðingja fyrir mótmælendum, þótt sjálfsagt sé um leið að leyfa friðsamleg mótmæli gegn þeim. Ég tók nafn mitt þess vegna ekki út af undirskriftalista þeirra Jökulssona: Ég vildi eftir sem áður mótmæla harðstjórninni í Kína.
Davíð Oddsson verður hins vegar ekki vændur um þjónkun við Kínastjórn. Hann tók til dæmis á móti varaforseta Taívan á Þingvöllum 1997 þrátt fyrir harkaleg mótmæli stjórnarinnar í Beijing. Ólafur Ragnar Grímsson og ráðherrar vinstristjórnarinnar vildu hins vegar ekki hitta Dalai Lama, þegar hann var hér á ferð vorið 2009.
Hreinn Loftsson kom hvergi nærri þessu Kínamáli, þótt vel geti verið, að ég hafi síðar sagt honum frá því, enda vorum við málkunnugir fram á vorið 2004, þegar hann sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum með þeim orðum, að hér á landi væri ógnarstjórn. En hvers vegna spinnur Hreinn nú upp hina fáránlegu sögu sína, sem enginn trúir raunar, eins og sjá má í umræðum á Netinu? Og rægir sífellt í blaði sínu gamlan vin og samverkamann, Davíð Oddsson? Það er efni í aðra grein á morgun að skýra það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Facebook