Hreinn skáldskapur

imagehandler_963087.jpgÉg verð að gera smáathugasemd við frétt Pressunnar um skrif Hreins Loftssonar á Netinu. Hreinn velur afmælisdaginn minn (líklega þó frekar seint um kvöld) til að segja sögu um okkur tvo, sem er hreinn skáldskapur, eins og allir fullvita menn hljóta að sjá. Hún er ekki aðeins ósennileg, heldur líka fáránleg, og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um hana hér.

Hreinn er auðvitað ekki með þessu að þjóna lund sinni og því síður að segja frá einhverri eigin reynslu, heldur er hann aðeins að þóknast húsbændum sínum, sem hafa allt frá árinu 2003 haldið uppi hatursherferð gegn Davíð Oddssyni og helstu stuðningsmönnum hans, af því að hann leyfði þeim ekki að eignast Ísland allt (þótt þeir yrðu vissulega moldríkir í hans tíð).

Svo langt gengu þessir menn eins og kunnugt er, að þeir veltu fyrir sér að bera fé á Davíð til að auðvelda lántökur í íslensku bönkunum til ýmissa ævintýra sinna. Jón Ásgeir Jóhannesson sagði við Hrein í þriggja manna tali, eins og Hreinn hefur sjálfur sagt frá: „Það er enginn maður, sem stenst það að fá 300 milljónir, sem hvergi koma fram, hvergi er greiddur skattur af og greiddar eru inn á reikning hvar sem er í heiminum.“

Um þetta leyti hafði Hreinn sjálfur mörg orð við mig um það, hversu mjög ég gæti hagnast, væri ég með í ævintýrum þeirra Baugsmanna mér að áhættulausu, eins og hann gæti komið í kring. Ég þyrfti aðeins að leggja fram sáralítið fé, 1–2 milljónir, og ætti 100 milljónir eftir árið!

Nei, Hreinn Loftsson og Jón Ásgeir Jóhannesson, það eru til menn, sem eru ekki falir. Davíð er einn þeirra. Við Davíð höfum ekki alltaf verið sammála, en ég verð að játa, að þegar okkur hefur greint á, hefur hann oftar reynst hafa rétt fyrir sér en ég. Því miður voru ein mistök mín þau að mæla með og fá því ráðið, að Hreinn yrði aðstoðarmaður Davíðs fyrstu misseri hans sem forsætisráðherra. Þar skjátlaðist mér heldur betur, eins og sumir vinir mínir höfðu raunar sagt fyrir um.

Ég taldi líka lengi Jón Ásgeir slunginn kaupsýslumann, sem gerði öðrum gagn um leið og sjálfum sér, þótt það væri eflaust ekki ætlun hans. Mér fannst á árum áður Davíð stundum fara offari í gagnrýni sinni á Baugsfeðga. Nú sé ég, að Davíð hafði rétt fyrir sér um það, að þetta voru stórhættulegir menn. Enginn átti eins mikinn þátt í því og Jón Ásgeir að fella Ísland: Þúsund milljarða skuld við íslensku bankana! Ekki þúsund milljóna skuld, heldur þúsund milljarða!

Hitt má Hreinn eiga, að hann kenndi mér ágætan íslenskan málshátt, sem lýsir vel sambandi hans við húsbændur sína: Sá á hund, sem elur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband